Þinghald í máli lögregluþjónsins verður lokað

Jens Gunnarsson, fyrrverandi lögreglumaður hjá fíkniefnadeild lögreglunnar, og Vilhjálmur Vilhjálmsson …
Jens Gunnarsson, fyrrverandi lögreglumaður hjá fíkniefnadeild lögreglunnar, og Vilhjálmur Vilhjálmsson lögmaður. mbl.is/Árni Sæberg

Þinghald í máli lögregluþjónsins fyrrverandi, sem ákærður hefur verið af embætti ríkissaksóknara fyrir meinta spillingu í starfi, mun fara fram fyrir luktum dyrum. Það var sækjandi sem fór fram á lokað þinghald og var því ekki andmælt þegar fyrirtaka málsins fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Frétt mbl.is: Lögreglumaður ákærður fyrir spillingu

Auk lögreglumannsins fyrrverandi, Jens Gunnarssonar, eru tveir aðrir ákærðir í málinu, Pétur Axel Pétursson og Gottskálk Þorsteinn Ágústsson, og mættu lögmenn þeirra allra í héraðsdóm upp úr hádegi í dag. Það er Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari sem sækir málið fyrir hönd ríkissaksóknara.

Tók lögmaður lögreglumannsins, Ómar Örn Bjarnþórsson hrl., fram fyrir hönd síns skjólstæðings að hann taki ekki afstöðu hvað varðar lokun þinghalda, hann sé hlutlaus en leggist ekki gegn þeim. Undir það tók verjandi Gottskálks sem ákærður er fyrir meinta spillingu í málinu, en hann lýsir sig einnig hlutlausan.

Kallar eftir frekari gögnum

Þá lagði verjandi Jens fram bókun þar sem óskað er eftir frekari gögnum vegna málsins, meðal annars gögnum sem sýni fram á hvort að ákærði Jens hafi flett upp nafni ákærða Péturs Axels í kerfum lögreglunnar. Saksóknari sagði það skynsamlega beiðni sem verði skoðuð.

Loks lagði verjandi Gottskálks, Eiríkur Elís Þorláksson hrl., fram greinargerð en verjendur hinna tveggja lögðu ekki fram frekari gögn. Eftir er að taka endanlega ákvörðun um hvenær aðalmeðferð fer fram en líklega verður það um miðjan mars. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert