Kvartmilljarðstjón vegna Perlu

Perla sökk í Reykjavíkurhöfn í árslok 2015. Klukkutími leið frá …
Perla sökk í Reykjavíkurhöfn í árslok 2015. Klukkutími leið frá því að það var sjósett eftir að hafa verið í slipp í Reykjavík þar til það var sokkið á hafsbotn. mbl.is/Rax

Stálsmiðjunni, sem rekur Reykjavíkurslipp, og tryggingafélagi félagsins, Tryggingamiðstöðinni, var í dag gert að greiða Sjóvá um 113 milljónir króna vegna tjónsins sem hlaust þegar sanddæluskipið Perla sökk í Reykjavíkurhöfn í lok árs 2015. Rétt rúmum klukkutíma eftir að Perla var komin úr slipp hjá Stálsmiðjunni var skipið sokkið til botns.

Sjóvá höfðaði mál gegn Stálsmiðjunni og TM fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og krafðist þess að fá rúmlega 230 milljónir króna vegna þess tjóns sem hlaust þegar Perla sökk en það er sú fjárhæð sem tryggingafélagið greiddi út til Björgunar, útgerðarinnar sem gerði út Perlu á þeim tíma sem hún sökk, og annarra sem komu að björgun skipsins.

Perla sökk skömmu eftir að skipið var sjósett. Stálsmiðjan og TM kröfðust sýknu í málinu og vildu meina að ábyrgðin hefði verið Björgunar, m.a. vegna þess að enginn skipstjóri hefði verið í skipinu og vegna þess að vélstjóri Björgunar hefði haft umsjón með viðgerðum sem voru Stálsmiðjunni óviðkomandi á meðan skipið var í slipp, s.s. viðgerð á þili milli botntanka undir lest skipsins og þrýstiprófun þeirra.

Sjóvá, tryggingafélag Björgunar sem átti Perlu, greiddi út rúmlega 233 …
Sjóvá, tryggingafélag Björgunar sem átti Perlu, greiddi út rúmlega 233 milljónir króna vegna tjónsins. mbl.is/Rax

Enginn skipstjóri um borð

Rétt rúmur klukkutími leið frá því að skipið var sjósett klukkan tíu 2. nóvember 2015 þar til það var sokkið til botns klukkan 11:13. Sjór streymdi óhindrað í gegnum 450 mm blöndunarloka á botni skipsins framanverðum og komst sjór þannig í lest skipsins í gegnum gat sem skorið hafði verið á tankbotninn í stokk sem lá eftir lestinni endilangri.

Frá aðgerðum í Reykjavíkurhöfn.
Frá aðgerðum í Reykjavíkurhöfn. mbl.is/Rax

Fyrir dómi kom fram að enginn skipstjóri hefði verið um borð og vélstjórinn kvaðst ekki kunna á lestarlokana þar sem sjór streymdi inn. Ástæða þess að enginn skipstjóri var um borð var að ekki stóð til að sigla skipinu heldur átti að draga skipið stutta vegalengd innan hafnarsvæðisins þar sem ljúka átti vinnu við lagfæringar skipsins af hálfu útgerðarinnar.

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóminn. Ásmundur Helgason héraðsdómari kvað upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum Bárði Hafsteinssyni skipaverkfræðingi og Jóni I. Pálssyni skipatæknifræðingi. Sjóvá fór fram á að stefndu greiddu rúmlega 231 milljón króna en tryggingafélagið greiddi Björgun ehf. og aðilum sem komu að björgunaraðgerðunum samtals tæplega 233 milljónir króna. 

Perla var á endanum seld til Furu ehf. til niðurrifs. Hér má lesa dóminn í heild sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert