Hlaupið nái hámarki eftir nokkra tíma

Frá Múlakvísl í morgun. Vegagerðin er á staðnum.
Frá Múlakvísl í morgun. Vegagerðin er á staðnum. mbl.is/Jónas Erlendsson

„Það hefur vaxið mjög mikið rafleiðnin núna, sérstaklega síðasta klukkutímann. Hún er komin upp í 580 μS/cm,“ segir Gunnar B. Guðmundsson, sérfræðingur á sviði jarðvár hjá Veðurstofu Íslands, um ástand mála í Múlakvísl. Jökulhlaup er hafið í ánni og mun líklega ná hámarki eftir fáeinar klukkustundir.

Gunnar varar fólk við að vera nálægt ánni vegna gasmengunar og segir mikinn fnyk leggja frá henni. Veðurstofa er í sambandi við Almannavarnir og Vegagerðina, sem er tilbúin til að loka veginum yfir ána.

Litakóða Kötlu var í nótt breytt í gult en Gunnar segir fyrst og fremst um varúðarráðstöfun að ræða. Skjálfti af stærð 3 varð í Kötluöskjunni um kl. 1 en þar hefur verið rólegt síðustu klukkustundirnar.

Gunnar segir fyrrnefnda rafleiðni til marks um að vatnið sé að koma úr svokölluðum jarðhitakötlum undir öskjunni.

„Líklegast eru þetta katlar í norðanverðri eða norðaustanverðri öskjunni. Menn vita ekki nákvæmlega hvaða ketill er að tæma sig. En það er líklegt að það sé nálægt Austmannsbungu eða þarna norðarlega í öskjunni,“ segir Gunnar. „Þetta eru sigdældir sem verða til vegna aukins jarðhita og þá bráðnar og safnast vatn undir og svo fer það bara út og þessi rafleiðni er merki um að það er að koma úr jarðhitakötlum.“

Árið 2011 rofnaði þjóðvegur 1 við brúna yfir Múlakvísl þegar hlaup hófst 8. júlí. Þá kom vatnið úr nokkrum kötlum, að sögn Gunnars, en óvíst er hversu margir eru að tæma sig nú.

Áin í morgun.
Áin í morgun. mbl.is/Jónas Erlendsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert