„Sé strax að hann er öskureiður“

Gísli Gíslason og Howard Kruger hjá TKO Promotions urðu bestu …
Gísli Gíslason og Howard Kruger hjá TKO Promotions urðu bestu vinir eftir kynni sem hófust með þeim sérstaka hætti að Gísli kom allt of seint að sækja Kruger út á flugvöll 5. júní 1992. Ljósmynd/Aðsend

„Sko, þetta var nú þannig að ég var með lögfræðistofu í Skipholti á þessum tíma og var svona með alla þessa frægustu á Íslandi á þessum tíma í kúnnahópnum,“ segir Gísli Gíslason lögmaður sem hafði veg og vanda af því ásamt Rikhard heitnum Eyfeld hjá Tónkó hf. að flytja hljómsveitina Iron Maiden inn til tónleikahalds í Laugardalshöllinni 5. júní 1992, fyrir 30 árum í dag, á opnunartónleika heimsreisu þessarar lífseigu bresku málmsveitar, Fear of the Dark World Tour, sem dró nafn sitt af nýútkominni plötu þeirra Bruce Dickinson og félaga.

Þetta viðtal við Gísla er langt í frá tekið fyrir tilviljun, blaðamaðurinn sem hér skrifar sótti þessa mögnuðu tónleika Bretanna og fékk meira að segja í fyrsta og eina sinn á fjórum sumrum að fara fyrr heim úr sumarstarfinu hjá byggingarverktakanum Ístaki hf., þá 18 ára síðhært og renglulegt unglingskvikindi, starfandi í girðingarvinnu í Kapelluhrauni í góðum hópi.

Leigubíll á 500 kall

Á heimili þess sem hér skrifar, í Garðabænum á þeim tíma, voru nokkur glös tæmd í vinahópnum sem ætlaði saman á tónleikana, að sjálfsögðu við undirleik hinnar goðsagnakenndu plötu þeirra Járnfrúarmanna, The Number of the Beast, sem á þessum tíma var nánast ný, kom út áratug áður. Stemmningin var mikil, auðvitað höfðu nokkrir stórtónleikar verið haldnir á Íslandi á þessum tíma, Led Zeppelin 1970, Skid Row tuttugu árum síðar að ógleymdu Risarokkinu í Kaplakrika 16. júní 1991, og er þá aðeins örfátt nefnt, en að fá Iron Maiden til landsins voru álíka fréttir og þegar Metallica boðaði komu sína 4. júlí 2004. Þá er eftirminnilegt að leigubifreið úr Garðabæ í Laugardalinn kostaði 500 krónur.

Tónleikamiðar voru hreinar gersemar og oft og tíðum listaverk á …
Tónleikamiðar voru hreinar gersemar og oft og tíðum listaverk á árum áður, fyrir daga strikamerkja og QR-kóða. Hér er miði blaðamanns á tónleika Iron Maiden 5. júní 1992, hreinn safngripur. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

En aftur að Gísla lögmanni. „Já, svo kemur sem sagt símtal og stelpan á símanum segir „Heyrðu, það er verið að hringja frá útlöndum,“ og þá er það TKO [umboðsskrifstofan] í Bretlandi og við mig er sagt „Sæll, við ætlum að vera með tónleika á Íslandi, Iron Maiden er að koma og okkur vantar tengilið á landinu.“ Já já, það er ekkert mál,“ kveðst Gísli þegar hafa svarað erindinu og heldur frásögninni áfram af deginum góða fyrir 30 árum.

Afsökunarbeiðni eða læt sem ekkert sé

„Svo kemur að þessum degi, 5. júní 1992, og ég fæ símtal þar sem mér er sagt að sonur eiganda TKO sé að koma til landsins og sækja þurfi hann til Keflavíkur um klukkan fjögur,“ segir Gísli, en gesturinn var Howard Kruger sem hafði veg og vanda Bretlandsmegin af heimsókn sveitarinnar.

Steve Harris, bassaleikari og stofnandi Iron Maiden, með hendur á …
Steve Harris, bassaleikari og stofnandi Iron Maiden, með hendur á bassa í síðari tónleikum sveitarinnar á Íslandi, í Egilshöll 7. júní 2005. Voru þeir mun fjölsóttari en þeir fyrri en sá sem hér skrifar skemmti sér nú betur 1992 hvað sem því líður. Morgunblaðið/Þorkell Þorkelsson


„Svo er klukkan að verða fjögur og ég er enn niðri á skrifstofu, var mikið að gera, svo ég bruna til Keflavíkur, orðinn allt of seinn, og á þessum tíma voru nú ekkert mörg flug til Íslands. Þegar ég kem út í stöð stendur einn maður þarna á miðju gólfinu með tvær töskur og ég sé það bara strax að hann er öskureiður. Svo ég hugsa með mér að annaðhvort fari ég til hans og bara biðjist afsökunar eða ég bara láti eins og ekkert sé og segi honum að það sé brjálað að gera hjá mér og hann skuli bara taka töskurnar og koma með mér, án þess að afsaka neitt,“ segir Gísli og hlær við tilhugsunina.

Úr varð að hann gekk til Krugers og lagði spilin á borðið, játaði að hafa verið seinn vegna annríkis og spurði hvort ekki mætti gera hið besta úr. „Hann varð steinhissa en síðan höfum við verið bestu vinir,“ segir Gísli sem enn er í sambandi við Kruger 30 árum eftir Iron Maiden-ævintýrið. „Þetta var svo magnað, hann gisti á Hótel Esju [sem þá var] og svo fórum við niður í Höll og hittum hljómsveitina og svo fóru þessir frábæru tónleikar fram, þetta var alveg mögnuð frammistaða hjá þeim.“

Hlaupið til hæðanna

Blaðamaður getur ekki annað en tekið undir þetta, þrátt fyrir að aðeins 3.000 manns hafi mætt á þessa tónleika Iron Maiden, sem skiluðu sjö milljóna tapi, engum smáaurum árið 1992, var lagavalið frábært og gleymist líklega fáum þeirra, sem þarna voru mættir, þegar upphafstónar meistaraverksins Run to the Hills gullu í Höllinni. Þakið bifaðist hreinlega og annað mjög eftirminnilegt atriði var þegar Bruce söngvari Dickinson bað gesti að klappa fyrir trommuleikaranum Nicko McBrain sem átti fertugsafmæli á tónleikunum, í dag fagnar hann 70 árum.

Vinirnir Kruger og Gísli. Kruger var alveg sama um tapið …
Vinirnir Kruger og Gísli. Kruger var alveg sama um tapið af tónleikunum 1992, sjö milljónir króna, sagði einfaldlega að stundum tapaði maður og stundum græddi maður. Svo sem engin lygi. Ljósmynd/Aðsend

Kveður Gísli Kruger hafa fengið hálfgert áfall þegar hann gekk út úr Höllinni eftir tónleikana og enn var bjart sem um miðjan dag, enda stutt í sólstöður að sumri. „Hann bara náði alls ekki utan um hvað var að gerast, hafði aldrei upplifað annað eins, nýkominn út úr myrkrinu í Höllinni.“

Gísli kom að fjölda annarra verkefni með Kruger sem kippti sér ekkert upp við tapið af tónleikunum. „Hann sagði bara við mig að stundum tapaði maður og stundum græddi maður, það væri ekkert mál, hann var mjög sáttur,“ segir Gísli.

„Við fluttum svo inn The Nigel Kennedy Band, ballettinn Svanavatnið sem var sýndur þrettán sinnum í Þjóðleikhúsinu, Chinese State Circus og fleiri listamenn,“ segir Gísli af samstarfi þeirra Krugers.

Ein ekki mjög margra mynda sem til eru frá tónleikunum …
Ein ekki mjög margra mynda sem til eru frá tónleikunum 1992, löngu fyrir þann tíma þegar almenningur tók að ganga um með myndavél í formi síma í vasanum daginn út og inn. Morgunblaðið var ekki með ljósmyndara á staðnum í Laugardalshöllinni en Björg Sveinsdóttir tók þessa mynd sem Árni Matthíasson blaðamaður notaði við umfjöllun sína um tónleikana nokkrum dögum síðar. Ljósmynd/Björg Sveinsdóttir

Hvað sem líður tapi af fyrri tónleikum Iron Maiden árið 1992, hljómsveitin lék svo aftur á mun fjölsóttari tónleikum á Íslandi 7. júní 2005, grunar þann sem hér skrifar að tónleikagestirnir 3.000 hafi skemmt sér konunglega í Laugardalshöllinni föstudaginn 5. júní 1992, sem var einmitt við hvítasunnu eins og nú, sléttum 30 árum síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert