„Ég veit það eitt að ég veit ekki neitt“

Tómas A. Tómasson.
Tómas A. Tómasson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tómas A. Tómasson, þingmaður Flokks fólksins, betur þekktur sem Tommi í Hamborgarabúllunni, fór víða í ræðu sinni á Alþingi í gær þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu vegna vantrauststillögu gegn dómsmálaráðherra.

Hann minntist á Þorgeir Ljósvetningagoða, Síðu-Hall og Sókrates í stuttri ræðu sinni.

Tómas var eini þingmaðurinn sem greiddi ekki atkvæði og sagðist upplifa sig eins og vindpoka á flugvellinum á Sandskeiði því hann trúði báðum aðilum.

Hér má lesa ræðuna í heild sinni:

„Virðulegi forseti. Hv. þingmenn, hæstv. ráðherrar og kæra þjóð. Sitt sýnist hverjum. Eva Sjöfn Helgadóttir talaði um að veita fordæmi. Eins og allir vita var Alþingi Íslendinga stofnað 930. Á árunum 985 til 1001 var Þorgeir Ljósvetningagoði Þorkelsson lögsögumaður. Á þeim tíma risu upp deilur milli kristinna manna og heiðinna. Þorgeir var þá leiðtogi síðarnefndra, en leiðtogi kristinna manna var Síðu-Hallur. Sagt er að til að komast að niðurstöðu hafi Þorgeir lagst undir feld í nokkurn tíma og síðan ákveðið að Ísland skyldi vera kristið en leyfa útburð barna, át á hrossakjöti og blót ef það var gert í laumi. Ég stend hérna og upplifi það að ég er eins og vindpoki á flugvellinum upp á Sandskeiði. Ég er búinn að hlusta á ykkur og eftir því sem ég heyri þá trúi ég báðum aðilum og segi eins og Sókrates: Ég veit það eitt að ég veit ekki neitt. Þess vegna greiði ég ekki atkvæði.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka