Segir loforð Einars vera innantóm

Halldóra Björk Þórarinsdóttir, formaður Barnsins, félags dagforeldra í Reykjavík og …
Halldóra Björk Þórarinsdóttir, formaður Barnsins, félags dagforeldra í Reykjavík og Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs. Samsett mynd

Halldóra Björk Þórarinsdóttir, formaður Barnsins, félags dagforeldra í Reykjavík, segir loforð Einars Þorsteinssonar, formanns borgarráðs, um að endurreisa dagforeldrakerfið vera innantóm.

Sérstaklega talar hún um endurtekin loforð um húsnæði fyrir stéttina. Áður hafi verið auglýst að dagforeldrar ættu að sækja um og fá leiguhúsnæði frá borginni.

„Auglýsingin var að við ættum að fá hús og að nýir dagforeldrar ættu að fá hús og þetta yrði ekkert mál, sett niður á græn svæði hér og þar um borgina. Svo kom upp úr krafsinu að það væru ekki til nein hús og að við ættum ekki að fá nein hús,“ segir Halldóra Björk í samtali við mbl.is.is

Halldóra segir að nú sé aftur lofað húsnæði með sama hætti og spyr hún hvað felist í nýju loforði.

„Eru þetta aftur innantóm loforð til þess að fjölga dagforeldrum? Maður er hættur að trúa. Af hverju boða þau okkur ekki á fund? Af hverju fá þau ekki okkar hlið á hvað væri best að gera eða hvað væri hægt að gera til að koma til móts við okkur?“ spyr Halldóra.

Samtals milljón í styrk

Einar Þorsteinsson kynnti nýjar tillögur í málefnum dagforeldra, sem borgarráð hefur þegar samþykkt, í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær.

Í tillögunum kemur meðal annars fram að dagforeldrar sem séu að hefja starfsemi í Reykjavík fái samtals eina milljón króna stofnstyrk frá borginni.

Einnig verði árlega greiddur aðstöðustyrkur upp á 150 þúsund krónur fyrir dagforeldra sem hafa starfað í tvö ár eða lengur.

11 af 85 dagforeldrum að hætta

Halldóra segir Einar bjóða nýjum dagforeldrum gull og græna skóga en lítið sé gert fyrir þá sem þegar starfi sem dagforeldrar.

Sjálf var hún fyrir nokkrum árum í stýrihóp sem lagði meðal annars til að stofnstyrkur yrði settur fyrir nýja dagforeldra upp á 300 þúsund krónur og var það samþykkt. 

„Okkur var lofað að setja ætti inn aðstöðustyrk fyrir eldri dagforeldra upp á 200 þúsund einu sinni á ári,“ segir Halldóra.

Nú sé raunin sú að stofnstyrkur verði hækkaður um 700 þúsund krónur en aðstöðustyrkur lækkaður um 50 þúsund.

„Hvað á að gera til þess að halda í þá dagforeldra sem eru nú þegar við störf?“ Spyr Halldóra.

Hún segir að 11 dagforeldrar muni hætta fyrir haustið af þeim 85 starfandi sem Einar tali um.

Sumir borga helmingi meira en aðrir

Tillögur borgarinnar fela einnig  í sér að þegar barn nær 18 mánaða aldri greiði foreldrar til dagforeldris sama gjald og í leikskólum Reykjavíkurborgar.

„Hann talar um að það sé mismunandi á milli borgarhluta hvort að börnin komist inn á leikskóla 12, 14 eða 20 mánaða. Ef það á að hækka niðurgreiðsluna frá 18 mánaða en þeir lofa leikskólaplássi frá 12 mánaða, er það ekki mismunun?“ spyr Halldóra.

Hún kallar það mismunun þar sem loforð borgarmeirihlutans sé leikskólapláss fyrir öll börn 12 mánaða og eldri en ef barnið komist ekki inn í leikskóla þurfi foreldrar þeirra að borga rúmlega helmingi meira en foreldrar þeirra barna sem hafi komist inn.

„Að sjálfsögðu ætti að hækka niðurgreiðsluna frá 12 mánaða til þess að koma jafnt á við alla foreldra,“ segir Halldóra.

Tillögurnar ekki alslæmar

Halldóra segist þó fagna því að boðið verði upp á slysavarnanámskeið fyrir dagforeldra á tveggja ára fresti en það sé eitthvað sem stéttin hafi barist fyrir í mörg ár.

„Við erum líka búin að óska eftir endurmenntun eða auknum námskeiðum í alls konar. Hvernig við getum öðlast meiri reynslu og þekkingu en það er alltaf hunsað,“ segir Halldóra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert