Vantar enn í yfir 30 stöður og 141 barn á biðlista

Notast er við síinnritun á leikskóla Hafnarfjarðar, sem er breyting …
Notast er við síinnritun á leikskóla Hafnarfjarðar, sem er breyting frá því sem áður var.

Enn vantar starfsfólk í um 30 til 34 stöðugildi á leikskólum Hafnarfjarðar, en þar er 141 barn á biðlista eftir plássi. 18 leikskólar eru í Hafnarfirði og er viðmið um innritunaraldur 15 mánuðir.

Staðan á biðlistanum breytist þó frá degi til dags í takti við ráðningar í stöður leikskólastarfsfólks, en foreldrar barna á innritunaraldri fá boð um pláss um leið og ráðið er í lausar stöður.

Þetta kemur fram í svari Árdísar Ármannsdóttur, samskiptastjóra hjá Hafnarfjarðarbæ, við fyrirspurn mbl.is.

Hvetjandi aðgerðir skila árangri 

Hún segir það þó hafa sitt að segja hve atvinnuleysi er lítið, en hvetjandi aðgerðir hafi skilað jákvæðum árangri.

„Atvinnuleysi er lítið um þessar mundir og finnur Hafnarfjarðarbær fyrir því líkt og aðrir, hvort sem um er að ræða opinberar stofnanir eða fyrirtæki. Sveitarfélagið hefur lagt áherslu á hvetjandi aðgerðir til handa starfsfólki með það að markmiði að ýta undir áhuga faglærðra og ófaglærðra á störfum í leikskólum Hafnarfjarðar.

Aðgerðirnar eru að skila sér sem endurspeglast meðal annars í aukningu í fjölda faglærða innan leikskólanna og þeim fjölda starfsfólks sem eru að sækja sér fagmenntun með stuðningi og styrk frá sveitarfélaginu,“ segir Árdís.

Börn fædd í janúar 2022 fá næst boð 

Alls hafa 368 boð verið send út vegna leikskólaplássa fyrir haustið 2023, en eins og á flestum stöðum er innritað eftir kennitölu. Börn fædd í desember 2021 og fyrr, sem sóttu um fyrir júní 2023, hafa nú þegar fengið boð um leikskólapláss. Næsti hópur sem fær boð eru börn fædd í janúar 2022 og eldri börn á biðlista sem sótt var um fyrir í júní 2023 eða síðar.

Breytingar hafa verið gerðar á fyrirkomulagi innritunar með það að leiðarljósi að ná frekar settum markmiðum um innritunaraldur.

„Ákvörðun um síinnritun á haustmánuðum hefur verið tekin í Hafnarfirði sem er breyting frá því sem áður hefur verið. Markmiðið er að taka á móti sem flestum börnum sem fyrst á leikskóla bæjarins til að ná settum markmiðum um innritunaraldur og gerist það sem fyrr segir í takti við ráðningar í lausar stöður. Hver og ein ráðning skiptir máli,“ útskýrir Árdís.

Þá geta foreldrar barna í Hafnarfirði sem hafa náð 12 mánaða aldri og eru á biðlista eftir leikskólaplássi nú sótt um heimgreiðslur, og hvetur Árdís foreldra eindregið til að sækja um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert