„Engin stórtíðindi í grein Bjarna“

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, ræðir við mbl.is um grein …
Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, ræðir við mbl.is um grein Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.

„Ég er sammála því sem fram kemur í greininni hjá Bjarna og í sjálfu sér finnst mér ekki vera nein stórtíðindi í henni,“ segir Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri hlutafélagsins Betri samgangna, í samtali við mbl.is.

Í aðsendri grein Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu í dag segir Bjarni að kostnaðaráætlun samgöngusáttmála sé stórlega vanmetin og hækki úr 160 milljörðum í 300.

Sáttmáli um samgönguframkvæmdir frá árinu 2019

„Það kom fram i byrjun árs að upphaflegar áætlanir höfðu verið vanáætlaðar í samgöngusáttmálanum, bæði hvað borgarlínuna, stofnvegaframkvæmdirnar og fleira. Ég hef að vísu ekki séð þessa vanáætlun varðandi hjólastígana. Það eru mörg smá verkefni í þessum sáttmála sem hægt væri að sleppa einhverjum þeirra, stytta eða lengja,“ segir Davíð.

Ríkið, Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær undirrituðu sáttmála um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu í september 2019.

„Það sem á reyndar við um allar opinberar innviðafjárfestingar er að þær eru vanáætlaðar og þá getum við horft til dæmis til Landspítalans og samgöngumála úti á landi. Þetta er reyndar alþjóðlegt vandamál.

Við vorum í síðustu viku með opinn fund þar sem þar talaði fyrrverandi skipulagsstjóri í Vancouver. Hann telur þetta upp sem hann kallar innviðakostnaðarkrísuna sem eina af fimm helstu krísum sem borgarsvæði standa frammi fyrir ásamt loftlagsbreytingum, vaxandi bílaumferð og fleiru slíku,“ segir Davíð.

Var ákveðið að uppfæra samninginn

Davíð segir að miklar verðlagshækkanir hafi sett í strik í reikninginn.

„Þessar hækkanir hafa verið sérstaklega miklar í verklegum framkvæmdum og þegar þetta tvennt leggst saman þá hafa tölurnar breyst. Þess vegna var ákveðið í mars að uppfæra samgöngusáttmálann.

Ríki og sveitarfélög skipuðu viðræðuhóp sem hefur verið að störfum síðan og við höfum matað þau með upplýsingum þar á meðal með nýjum og betri tölum að okkar mati eins og Bjarni vísar til í grein sinni. Þau segjast ætla að klára sína vinnu og vera komna með uppfærða samninga í október eða nóvember.

Þessar vanáætlanir og verðlagshækkanir gefa tilefni til þess að uppfæra sáttmálann. Bjarni talar um forsendubrest á meðan aðrir eins og Dagur B. Eggertsson vill ekki tala þannig. Ég ætla ekkert að blanda mér inn í þá umræðu,“ segir Davíð.

Hægt að fresta verkefnum eða lengja sáttmálann

Davíð segist ekki hafa hitt neinn sem vill hætta við að fjárfesta í samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu.

„Þetta eru mikilvægar og arðbærar framkvæmdir og ég held að það sé hægt að leysa þetta án þess að biðja hluthafana, ríki og sveitarfélög, um hærri framlög.

Það er hægt að leysa þetta með því að annaðhvort að skera niður og fækka verkefnum eða þá að fresta einhverjum verkefnum, lengja sáttmálann eða búa til nýjan sáttmála, sáttmála tvö sem myndi taka við árið 2033 þegar þessum lýkur. Þetta hefur verið gert í borgum í Noregi og í Svíþjóð og til að mynda er Ósló komin á sinn þriðja sáttmála.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert