Viðhaldsskuld veldur áhyggjum

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sem situr í umhverfis- og samgöngunefnd …
Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sem situr í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur í nokkurn tíma verið að undirbúa í almennri umræðu niðurskurð í samgönguáætlun, segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, Samfylkingunni, sem situr í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Viðhaldsskuld í vegakerfinu veldur henni áhyggjum. 

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, seg­ist þeirr­ar skoðunar að bíða þurfi með fram­kvæmd­ir að and­virði 100 millj­arða króna a.m.k. á höfuðborg­ar­svæðinu, úr sam­göngusátt­mál­an­um. Nýtt kostnaðarmat upp á 300 millj­arða kr. í stað 160 millj­arða kr. geri þetta að verk­um. 

Innri barátta í ríkisstjórn 

„Ég myndi gjarnan vilja sjá umrædda samgönguáætlun, það á eftir að mæla fyrir henni á þingi,“ segir Þórunn og bætir við að áætlunin sé á forræði Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra.  

Þórunn segir allt benda til þess að nú fari fram innri barátta í ríkisstjórninni um fjármögnun samgönguframkvæmda. „Við eigum eftir að sjá hverjar hinar raunverulegu tillögur verða,“ segir hún.

Þjóðhagslega hagkvæmar framkvæmdir 

Viðhaldsskuld í vegakerfinu veldur Þórunni áhyggjum. Hún segir skuldina hreinlega ekki mega hækka, enda margar brýnar og þjóðhagslega hagkvæmar framkvæmdir í pípunum. 

„Í ljósi þess að ríkisstjórnin er að setja sig í niðurskurðarstellingar, þá langar mig að benda á að langhagkvæmasta framkvæmd sem hægt er að ráðast í, er uppbygging Borgarlínu fyrir allt höfuðborgarsvæðið og þar með efling almenningssamgangna.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert