Galdurinn í leikhúsinu

Marius von Mayenburg, leikskáld og höfundur þríleiksins Ellen B, Ex …
Marius von Mayenburg, leikskáld og höfundur þríleiksins Ellen B, Ex og Alveg sama. mbl.is/Eyþór

Í leikhúsinu er hægt að gera hluti, sem er ógerningur að gera í kvikmynd, segir leikskáldið og leikstjórinn Marius von Mayenburg. Þriðja leikrit þríleiks hans er heimsfrumsýnt í hans leikstjórn í Þjóðleikhúsinu í kvöld, 23. september, og nefnist Ekki málið. Mayenburg segir í viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins að galdurinn í leikhúsinu sé að gera fólki kleift að setja sig í spor annarra með öðrum hætti en hægt er að gera á hvíta tjaldinu.

„Þegar leikari leikur rasista á sviðinu finn ég allt í einu að ég gæti líka verið rasisti. Að við finnum að við erum ekki svo framandi hvert fyrir öðru; fólk eða gerðir, sem virðast okkur fjarlæg, verða allt í einu mjög nálæg, manni bregður og gerir sér grein fyrir að maður gæti verið Óþelló eða jafnvel Jagó. Þessi möguleiki leikhúsins á að gera manni kleift að samsama sig, sjá sig í öðrum, er mjög verðmætur og lykilástæða fyrir því að við þurfum á leikhúsi að halda.

Er þetta frekar mögulegt á sviði en á hvíta tjaldinu?

„Algerlega, ég held að þetta sé alls ekki hægt á hvíta tjaldinu. Í bíó er verið að blekkja okkur. Ég veit að Ryan Gosling stendur þarna eða hver sem það er, en ég gleymi því. Í leikhúsinu er ekki hægt að gleyma því. Ég sé að þarna er maður og hann er að þykjast. Ég sé hvar ég sit, þarna er svið og þarna ljóskastari. Blekkingin er sjáanleg allan tímann. Það er hluti af skemmtuninni, hluti af töfrabragðinu. Þess vegna finnst mér þetta bara virka í leikhúsinu, bara þegar ég er með þetta lifandi fyrir framan mig, þegar ég sit og hugsa með mér að ég viti að leikarinn, sem stendur þarna fyrir framan mig, heitir Björn Thors, en ég ákveð að í kvöld skuli ég trúa því að þetta sé Hamlet.

Það er galdurinn í leikhúsinu. Kvikmyndin reyndir að gera þetta ósýnilegt, en leikhúsið sækir sitt aðdráttarafl í að við erum á staðnum þegar þessi umbreyting á sér stað – þegar leikari stígur á sviðið og lætur eins og hann sé einhver annar. Þetta er töfrabragð og það er meira í það spunnið en þegar við sjáum bara útkomuna. Kvikmyndin er alltaf bara útkoman af töfrabragðinu. Ef önd er breytt í ljón vil ég verða vitni að því, það dugar mér ekki að sjá bara ljónið. Kvikmyndin sýnir bara ljónið. Leikhúsið sýnir þegar öndin breytist í ljón.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert