Lokað í 212 daga í fyrra en ekkert í ár

Á þessari önn hefur Kópavogsbær unnið að innleiðingu breytinga á …
Á þessari önn hefur Kópavogsbær unnið að innleiðingu breytinga á skipulagi og starfsumhverfi leikskóla. Meðal markmiða með aðgerðunum var að fyrirbyggja að loka þyrfti deildum og raska starfsemi leikskóla vegna veikinda starfsmanna og annars mönnunarvanda. Ljósmynd/Colourbox

Á skólaárinu 2022-2023 þurfti alls að loka leikskólum í Kópavogi 212 daga. Þar af voru 93 lokunardagar í einum leikskóla. Lokað var hluta úr degi alls 158 daga á þessu tímabili. Á núlíðandi skólaári, haustið 2023, hafa leikskólar Kópavogs aldrei þurft að loka deildum. 

Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs þar sem greint er frá svari við fyrirspurn um fjölda lokana á deildum leikskóla í bænum. 

Innleiddu nýtt skipulag

Þar segir m.a. að á þessari önn hafi Kópavogsbær unnið að innleiðingu breytinga á skipulagi og starfsumhverfi leikskóla sem samþykktar voru í bæjarstjórn Kópavogs í júní. Meðal markmiða með aðgerðunum var að fyrirbyggja að loka þyrfti deildum og raska starfsemi leikskóla vegna veikinda starfsmanna og annars mönnunarvanda.

„Vel hefur gengið að vinna að markmiðum, sem birtist m.a. í því að það sem af er núlíðandi skólaári, haustið 2023, hafa leikskólar Kópavogs aldrei þurft að loka deildum og aðeins 1-2 leikskólar hafa í eitt skipti þurft að óska eftir því við foreldra að börn verði sótt fyrr þann daginn,“ segir í svarinu. 

Jafnframt segir, að á árunum 2017-2020 hafi lítið sem ekkert verið um að loka þyrfti deildum á leikskólum. Mönnun hafi oft verið erfið en kom þó ekki til þess að loka þyrfti deildum heldur var frekar gripið til þess úrræðis að óska eftir því við foreldra að sækja börn sín fyrr þann daginn, væri þess kostur.

Starfsemin ítrekað skert vegna Covid 

Þá kemur fram, að á árunum 2020, 2021 og byrjun árs 2022, meðan Covid-19 faraldur stóð yfir, hafi starfsemi leikskóla verið ítrekað skert vegna samgöngutakmarkana og leikskólastarf óhefðbundið um lengri eða skemmri tíma.

„Það tímabil telst því vart marktækt. Nokkur dæmi voru um að loka þyrfti deildum en þær lokanir tengdust gjarnan Covid veikindum og þóttu ekki tiltökumál á þeim tíma þar sem starfsemi leikskóla var oft óhefðbundin og erfitt að greina á milli áhrifaþátta,“ segir í svarinu.

Mikil röskun skólaárið 2022-2023

Á skólaárinu 2022-2023 fjölgaði verulega þeim tilvikum sem loka þurfti deildum vegna manneklu. Fram kemur, að kjarasamningar frá árinu 2020, sem fólu m.a. í sér fjölgun undirbúningstíma leikskólakennara og ekki síst innleiðingu vinnutímastyttingar, hafi haft þar mikil áhrif.

Áhrif þessara breytinga á skipulag mönnunar og starfsumhverfis leikskóla urðu mun áþreifanlegri þegar Covid-19 faraldri lauk.

Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir var tíðni röskunar á leikskólastarfi skólaárið 2022-2023 með eftirfarandi hætti: 

  • Á haustönn 2022 þurftu flestir leikskólar í einhverjum tilvikum að óska eftir því við foreldra að börn verði sótt fyrr en ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda tilvika.
  • 16 af 21 leikskóla þurfti að loka deildum einn dag eða fleiri á tímabilinu.
  • Lokað var hluta úr degi 158 daga á þessu tímabili og var það yfirleitt frá hádegi og í flestum tilvikum ein deild í einu.
  • Loka þurfti alls 212 daga á tímabilinu en þar af voru 93 lokunardagar í einum leikskólanum. 6 leikskólar þurftu að loka deild í yfir 10 daga yfir tímabilið, aðrir leikskólar voru með innan við 10 lokunardaga.
  • Í langflestum tilvikum var skipulagið þannig að einni deild var lokað hvern þessara daga í hverjum leikskóla.
  • Einn leikskóli þurfti að loka deild vegna tilfallandi aðstæðna í 37 daga yfir 28 vikna tímabil.
  • Þrír leikskólar þurftu að skipuleggja samfellt tímabil lokana í nokkrar vikur vegna veikinda og manneklu. Einn leikskóli þurfti að loka einni deild á dag í 3 vikur samfleytt; annar leikskóli lokaði einni deild á dag samfleytt í 6 vikur. Sá leikskóli sem þurfti oftast að loka deildum skipulagði lokanir samfleytt í 18 vikur eða sem fyrr segir alls 93 daga.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert