Borgaði 15.000 krónur fyrir pítsu

Hafsteinn og Ágústa á flatri toppsyllu klettsins Preikestolen við Lysefjord, …
Hafsteinn og Ágústa á flatri toppsyllu klettsins Preikestolen við Lysefjord, skammt frá Stavanger, einum fjölsóttasta ferðamannastað Vestur-Noregs. Þjóðsagan segir að Preikestolen brotni af og falli 600 metra niður í hafið daginn sem sjö bræður ganga að eiga sjö systur við Lysefjord. Enn hefur enginn þorað að reyna slíkt brúðkaup. Ljósmynd/Aðsend

„Ef það hefði verið í boði að greina mig með eitthvað á þessum tíma hefði það verið ADHD [ofvirkni með athyglisbresti] með snert af einhverfu,“ segir Hafsteinn Krøyer Eiðsson í samtali við Morgunblaðið. Greiningar hans á andlega sviðinu verða því líklega aldrei gerðar heyrum kunnar en þeim mun ljósara er að greining Hafsteins á góðu myndefni í stórbrotinni náttúru Noregs er þeim mun nákvæmari – í raun hárfín.

Hafsteinn er úr Vogunum í Reykjavík en nú búsettur í bænum Sandnes, ásamt Ágústu Arndal Eyþórsdóttur konu sinni, steinsnar frá olíuhöfuðborginni Stavanger í vesturstrandarfylkinu Rogaland sem uppfóstrað hefur fjölda sagnapersóna við sitt brjóst, svo sem þá Erling Skjálgsson og Flóka Vilgerðarson, kunnari sem Hrafna-Flóka, en Erlingur var þekktur að því að gefa þrælum sínum jarðir og frelsi og gera þá að gegnum bændum. „Öllum kom hann til nokkurs þroska,“ skrifaði sagnaritarinn í Reykholti um Erling.

Sumar athafnir eru eins og að reyna að sleikja á …
Sumar athafnir eru eins og að reyna að sleikja á sér olnbogann, vantar ekki himin og haf upp á en nóg samt. Ljósmynd/Aðsend

Hafsteinn kom sjálfum sér hins vegar til nokkurs þroska hvað ljósmyndun snertir því hann er algjörlega sjálflærður að linsubaki, hóf ferilinn með eldgamlan iPhone-síma og stjörnukíki að vopni en tekur nú myndir sem blaðamaður leyfir sér að telja eiga fullt erindi í virtustu náttúrulífstímarit.

Rekinn af Landakoti

Áður en ljósmyndaáhuginn kom til vann Hafsteinn ýmis störf eftir að hafa ungur flosnað upp úr skóla þar sem bókvitið heillaði hann lítið enda alkunna að ekki verður það í askana látið. Hann lifir þó ekki af listsköpun sinni þótt verkefni við brúðkaupsljósmyndun leiti inn á borð hans og hann selji eina og eina mynd.

Græn norðurljósatjöld blakta yfir Reykjavík.
Græn norðurljósatjöld blakta yfir Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

Nú starfar Hafsteinn við útakstur hjá matvæladreifingarfyrirtækinu ASKO í Rogaland sem löngum hefur haft íslenska starfsmenn í hávegum og jafnvel sent fólk til Íslands til að ráða þarlenda til starfa á tímum bankahruns.

„Ég fór beint að vinna þegar ég datt út úr skólanum,“ segir Hafsteinn sem fæddur er árið 1978 og því staddur miðja vegu milli fertugs og fimmtugs, „fyrsta verkefnið var bara að fá vinnu,“ rifjar hann upp af lífi sínu árið 1995 en það var eldhúsið á Landakotsspítala sem fyrst fékk að njóta krafta hans.

„Ég var svo rekinn þaðan, reyndar ólögleg uppsögn svo ég fékk bætur. En ég fór svo á Borgarspítalann. Ég er alinn upp á sjúkrahúsum, pabbi og mamma voru alltaf að vinna á sjúkrahúsum svo ég var alltaf að þvælast þar,“ segir hann frá, faðir hans sá lengi vel um lagerinn í Fossvoginum og móðir hans ræsti skurðstofurnar. Þetta voru þau hjónin Eiður Hafsteinsson og Guðný Þorgeirsdóttir, nú bæði látin, en Hafsteinn er örverpið í systkinahópnum með þrjár eldri systur.

Jarfinn er stærsta marðardýrið og getur orðið allt að 23 …
Jarfinn er stærsta marðardýrið og getur orðið allt að 23 kílógramma þungur. Ljósmynd/Aðsend

Allt vitlaust í husky-heiminum

„Ég endaði sem sagt á sjúkrahúsum til tvítugs og fór svo að framleiða majones hvorki meira né minna hjá Vega, fyrirtæki sem nú er hætt held ég,“ rifjar Hafsteinn upp sem hóf því næst störf sem öryggisvörður hjá Securitas, var eftir það húsamálari í þrjú ár en síðar tók við ræktun siberian husky-hunda með barnsmóður hans.

„Það vorum við sem gerðum allt vitlaust í siberian husky-heiminum hérna á Íslandi. Það varð allt brjálað af því að við vorum með samninga sem enginn annar var með á Íslandi, þekktust bara erlendis, og maður fékk þvílíkt skítkast yfir sig. Nú eru allir með þetta,“ segir Hafsteinn og hlær dátt.

Skjaldbaka rekur höfuð sitt undan skel og heilsar Hafsteini.
Skjaldbaka rekur höfuð sitt undan skel og heilsar Hafsteini. Ljósmynd/Aðsend

Bankahrunið setti strik í reikning Hafsteins og barnsmóður hans eins og margra annarra Íslendinga. Þau voru þá komin með jörð við Eyjafjörð og sinntu ræktun þeirra ferfættu af alúð og kostgæfni. Hana misstu þau í hruninu. „Við misstum eiginlega allt á þessum tíma svo við ákváðum að flytja þetta til Danmerkur svo þar var ég í þrjú ár,“ segir Hafsteinn frá og rifjar upp frekar slaka íslenska krónu í hruninu miðju.

Danska bankahrunspítsan

„Einmitt sjötta október 2008 var ég úti í Danmörku á móteli með tengdapabba mínum að leita að húsi handa okkur. Við ákváðum að panta okkur pítsu og hún kostaði 15.000 íslenskar krónur,“ rifjar Hafsteinn upp og fær ekki varist hlátri yfir ástandi sem var ekkert voðalega fyndið í augum Íslendinga erlendis árið 2008 samt. „En það sem ég naut þess að borða þessa pítsu,“ bætir hann við og hlær enn.

Smávinir fagrir, foldar skart, orti Jónas Hallgrímsson.
Smávinir fagrir, foldar skart, orti Jónas Hallgrímsson. Ljósmynd/Aðsend

Í Danmörku slitnaði upp úr sambandi Hafsteins og barnsmóður hans og flutti hann til Íslands á nýjan leik og hóf störf hjá Olís. Þau Ágústa kynntust í kjölfarið en hún er Keflvíkingur og þangað fluttist Hafsteinn og var Keflavík lokabúsetan á Íslandi fram að flutningum til Noregs árið 2015 en Hafsteinn hafði búið um hríð í Noregi, skammt frá Bergen, um áratug áður. Nú hafa þau Ágústa búið í sama hverfi í Sandnes, Hana, þau tæpu tíu ár sem liðin eru frá flutningi þeirra í rann frændþjóðarinnar. Við víkjum talinu að ljósmyndun og áhuga Hafsteins á henni.

Einn tignarlegur í forsal vinda.
Einn tignarlegur í forsal vinda. Ljósmynd/Aðsend

Tómt vesen að skipta um merki

„Ég er algjörlega sjálflærður, notaði aldrei Google og enginn kenndi mér neitt. Þetta byrjaði allt á því að ég keypti mér stóran og mikinn stjörnukíki árið 2012,“ segir ljósmyndarinn frá. „Ég átti eldgamlan iPhone, fjögur eða eitthvað, svo ég ákvað að taka myndir af plánetunum á símann gegnum stjörnukíkinn, smíðaði búnað til þess. Og þetta gekk alveg ágætlega svo ég ákvað að kaupa mér stafræna myndavél, alveg eldgamla, Canon 450D, og smella henni á kíkinn og það gekk enn þá betur,“ heldur hann áfram.

Ferill Hafsteins hófst með eldgömlum iPhone 4-síma og stjörnukíki þótt …
Ferill Hafsteins hófst með eldgömlum iPhone 4-síma og stjörnukíki þótt óvíst sé að þessi mynd sé frá þeim tíma. Ljósmynd/Aðsend

Hafsteinn hefur haldið tryggð við Canon æ síðan, segir það tómt vesen að vera að skipta um merki, þá þurfi hann að skipta út öllum linsum og öðrum aukabúnaði um leið. Í kjölfar myndavélarkaupanna keypti hann svo linsur og boltinn fór að rúlla.

„Næstu árin fóru bara í að læra,“ segir Hafsteinn frá en Ágústa er einnig liðtækur ljósmyndari og eru þau skötuhjúin mikið á ferðinni í norskri náttúru þar sem fyrirsæturnar eru oftar en ekki smávinir fagrir, foldar skart, eins og Jónas orti. Sem fyrr segir hefur Hafsteinn einnig selt myndir og nefnir sérstaklega þegar DV keypti af honum mynd af áhlaupi sérsveitarmanna lögreglunnar á hafnarsvæðinu í Keflavík.

Nei blessaður! Íkorni lítur vökulum augum á íslenskan áhugaljósmyndara í …
Nei blessaður! Íkorni lítur vökulum augum á íslenskan áhugaljósmyndara í Noregi. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var þá að vinna hjá Securitas og Kjartan Már Kjartansson, nú bæjarstjóri Reykjanesbæjar, var yfirmaður minn, einn besti yfirmaður sem ég hef haft. Ég man ekkert hvað var að gerast þarna en ég var þarna við hliðina á með myndavélina og DV keypti eina af þeim myndum,“ segir Hafsteinn sem er alltaf með myndavélina á sér, „hún er bara framlenging af handleggnum á mér og er alltaf meðferðis, líka í vinnunni“, útskýrir gallharður áhugaljósmyndarinn.

Ágústa efnileg á vélinni

Blaðamanni, sem í mesta lagi rekst á einn og einn hund í viðrun auk þess að hafa einu sinni nánast ekið yfir ref á Ring 3 í Ósló um miðja nótt, leikur hugur á að vita hvernig Hafsteinn finni og nálgist íkorna, spætur, dádýr, marðardýrið jarfa, hreindýr, refi, snáka og hvaðeina kvikt úr norsku dýraríki sem hann myndar í gríð og erg.

Ein af Bláa lóninu innan um allt dýralífið.
Ein af Bláa lóninu innan um allt dýralífið. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er bara búinn að læra hvar viss dýr halda sig, maður veit orðið hvar íkornarnir búa og þeir koma mjög nálægt manni takist manni að vingast við þá,“ svarar Hafsteinn sem á óhemjustórt myndasafn eftir að hafa horft á heiminn mikið til gegnum linsu í tólf ár. „Konan mín fer mikið með mér út, ég kenndi henni ljósmyndun svolítið og hún tekur svakalega fínar myndir,“ segir Hafsteinn og stoltið yfir nemandanum keflvíska leynir sér ekki í rödd hans.

Eins og siður er þegar nær dregur lokum viðtala, og búið að afgreiða hverra manna viðmælandinn er samkvæmt kirkjubókum og annálum, reka framtíðaráætlanir lestina. Hafsteinn lumar þar á einni sem er nógu burðug til að fá að standa ein hér í lokin.

Matarhlé í norskri náttúru.
Matarhlé í norskri náttúru. Ljósmynd/Aðsend

„Ég ætla að efna til hópferðar ljósmyndara 12. ágúst 2026 til að taka myndir af sólmyrkva sem sést eingöngu sem fullkominn almyrkvi frá Spáni. Hann sést ekki alveg frá Íslandi, þú þarft að fara út á sjó og vera miðja vegu milli Íslands og Grænlands til að ná honum en Spánn er eina landið sem hann sést sem almyrkvi frá. Hann kemur inn rétt norðan við landamæri Portúgals og fer svo á ská í suðaustur til Mallorca eða í þá áttina,“ segir Hafsteinn.

Þær eru ófáar dýrategundirnar sem Hafsteinn hefur myndað í Noregi. …
Þær eru ófáar dýrategundirnar sem Hafsteinn hefur myndað í Noregi. Hann kveðst hafa lært mikið um hegðun villtra dýra fyrir vikið. Ljósmynd/Aðsend

Þá fer ég bara einn!

Hann ætlar sér að stefna hópi sínum til bæjar með hinu huggulega nafni Peñíscola og njóta myrkursins þar á meðan linsan og ljósopið gera sólmyrkvann 12. ágúst 2026 að ódauðlegu fyrirbæri. Draumurinn er að ná hópi ljósmyndara með í för en reynist ekkert aðalatriði þegar nánar er gengið á Hafstein með áætlunina:

„Ja, eða mig langar til þess. Mér er reyndar alveg sama þótt enginn komi, þá fer ég bara einn!“ segir hann og hlær. „Annars ætla ég mér nú bara að komast af, það er mín helsta framtíðaráætlun,“ segir Hafsteinn sem reiknar með að búa áfram í Noregi. „Náttúran hérna er svo stórbrotin og maður hefur lært svo mikið um hana. Ég mynda til dæmis snáka mikið og fer mjög nálægt þeim, ég hef lært mikið um það hvernig dýr haga sér af þessu áhugamáli,“ segir Hafsteinn Krøyer Eiðsson að lokum, afkastamikill áhugaljósmyndari og vörubifreiðarstjóri í Sandnes í Noregi.

„Ég mynda til dæmis snáka mikið og fer mjög nálægt …
„Ég mynda til dæmis snáka mikið og fer mjög nálægt þeim.“ Ljósmynd/Aðsend

Áhugasamir geta skoðað úrval mynda Hafsteins á Facebook-síðunni Hkroyer photography.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert