Dæmdir fyrir fjölda ofbeldisbrota á Akureyri

Dómurinn var kveðinn upp rétt fyrir jól í Héraðsdómi Norðurlands …
Dómurinn var kveðinn upp rétt fyrir jól í Héraðsdómi Norðurlands eystra. mbl.is/Þorsteinn

Tveir drengir á átjánda aldursári voru í desember sakfelldir í Héraðsdómi Norðurlands eystra í tengslum við fjölda líkamsárása og hótana á Akureyri, auk þjófnaðar á farsíma. Drengirnir voru 15 og 16 ára þegar brotin áttu sér stað, en þau beindust að mestu að öðrum ungmennum.

Fjórar líkamsárásir og hótanir

Samtals er um að ræða fjórar líkamsárásir og voru drengirnir í félagi í einni árásinni. Sá sem átti þátt í fleiri árásum var sakfelldur fyrir þrjár slíkar, en í einni þeirra var hann auk þess í félagi með ósakhæfum einstaklingi. Hinn var hins vegar sakfelldur fyrir tvær árásir. Sá síðarnefndi játaði allar sakir sem á hann voru bornar, en sá fyrrnefndi neitaði sök um eina líkamsárás og tengt því hótanir sem hann hafði uppi mánuði fyrir árásina um fórnarlambið við stjúpmóður þess.

Í þessu síðastnefnda máli er því lýst hvernig hótanir drengsins gagnvart öðrum dreng hafi leitt til þess að brotaþolinn og fjölskylda hans hafi óttast mikið, drengurinn lokað sig af og farið að veita sér sjálfskaða

Kýlt og sparkað í líkama og höfuð

Fyrsta málið er frá maí 2021 og varðar hótanir þess sem umfangsmeiri var í ofbeldinu gegn „A“, en þar hótaði hann meðal að ætla að drepa A fyrir að lemja yngri frænda sinn. Sendi hann A hótanirnar gegnum Instagram og viðurkenndi hann brot sitt.

Í sama mánuði réðust báðir drengirnir gegn „E“ á grasflöt og létu ítrekuð hnefahögg dynja á höfði og líkama E, auk sparka. Tekið er fram að spörkin hafi m.a. verið í höfuð og að jafnframt hafi verið stappað á höfði fórnarlambsins. Játuðu þeir báðir þessi brot sín.

Mánuði síðar réðst sá sem var umfangsmeiri í brotunum, í félagi með ósakhæfum einstaklingi, á „F“ og sló hann í jörðina áður en hann ítrekað kýldi F og sparkaði í hann. Játaði hann þetta brot sitt, en F er undir lögaldri.

Lagði hníf að hálsi manns og sló með leikfangabyssu

Á þessum tíma fóru drengirnir einnig í verslun á Akureyri og stálu þaðan iPhone síma sem sá umfangsmeiri í brotunum notaði svo sjálfur. Játuðu þeir þessi brot sín.

Í október þetta sama ár réðst svo sá sem ákærður var fyrir færri brot að „B“, tók hann hálstaki, lagði hníf að hálsi hans og sló hann í höfuðið með leikfangabyssu. Var hann talinn hafa vakið hjá B ótta um að líf sitt og velferð, en B hlaut einnig skurði á höfði vegna árásarinnar. Játaði drengurinn þessa árás.

Hótanir í myndsímtali og líkamsárás í kjölfarið

Að lokum hafði sá umfangsmeiri í brotunum uppi hótanir gagnvart „G“ beint og síðar í gegnum stjúpmóður hans áður en hann réðst á G í maí árið 2022. Í dómi héraðsdóms er því lýst þannig að hann hafi í byrjun apríl fyrst sent G skilaboð á Instagram og Messenger þar sem hann hótaði að drepa hann og aðra sem væru heima hjá G.

Önnur skilaboð hljóðuðu m.a. svohljóðandi: „Þú veist þið eruð dauðir þegar ég kem til ak ætla ég að taka félaga minn og slampa hausnum ykkar í jorðina þangað til ég sé heilan ykkar lekka á golfinu.“

Þá sagði hann að G ætti einnig bara eftir að kveðja fjölskylduna sína áður en hann myndi hverfa úr þessum heimi. Drengurinn játaði að hafa sent þessar hótanir.

Sagði að sonurinn yrði „bara svona slefandi“

Hann neitaði hins vegar að hafa átt í myndsímtali við stjúpmóður G þar sem hann viðhafði álíka hótanir. Var það þrátt fyrir að upptaka væri til á bæði síma hans og þess sem hótað var sem sýndi andlit drengsins. Vörn hans gekk hins vegar út á að ekki hefði sést í munn hans í samtalinu og að hann kannaðist ekki við að hafa lagt fram þessar hótanir.

Voru hótanirnar svipaðar og þær fyrri. Sagði hann stjúpmóðurinni að hann ætlaði að beita son hennar miklu ofbeldi og að hann yrði „bara svona slefandi“ eftir slíka árs.

Kemur fram í dóminum að ástæðan fyrir þessum hótunum hafi verið sú að drengurinn taldi þann sem hann var að hóta hafa áreitt systur sína kynferðislega.

Mánuði eftir þessa hótun í myndskilaboðunum réðst drengurinn á G, dró hann í jörðina og sló hann ítrekað í höfuðið og sparkaði í líkama hans uns G náði að komast undan.

Þrátt fyrir neitun í þessum síðustu tveimur atriðum taldi dómurinn að komin væri fram sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, um að drengurinn hafi bæði átt í hótununum og verið sá sem réðst á G í umrætt skipti. Var meðal annars vísað til ótrúverðugra skýringa hans, blóðs úr G sem var á skóm hans og fyrri hótana gagnvart G.

Hegðunarvandi sem þróast í andfélagslega persónuleikaröskun

Tekið er fram að báðir drengirnir séu sakfelldir fyrir sérstaklega hættulegar líkamsárásir og hótanir. Í tilfelli þess umfangsmeiri sé jafnframt um að ræða grófar hótanir í garð þriggja einstaklinga. Tekið er fram að í máli þess umfangsmeiri hafi hann réttlætt gjörðir sínar með því að fórnarlömbin hafi gert eitthvað á hlut hans. Ekki sé hins vegar um skyndilegt stjórnleysi að ræða í beinu framhaldi af atvikum, heldur hefnd síðar, jafnvel með löngum aðdraganda eins og í tilviki G.

Tekið er fram að drengurinn sé á átjánda aldursári, en hafi verið 15 og 16 ára þegar brotin voru framin. Tekið er fram að hann búi við mikinn hegðunarvanda sem sé að þróast í andfélagslega persónuleikaröskun. Í ljósi fjölda og alvarleika brotanna telur dómurinn afar brýnt að gripið verði til viðeigandi úrræða í þeirri viðleitni að sporna við þeirri þróun sem dómkvaddir matsmenn lýsa og stöðva hann á leið inn á frekari braut afbrota. Er því sex mánaða skilorðsbundinn dómur talinn hæfilegur.

Glímir við umtalsverða þroskahömlun

Seinni drengurinn er einnig á átjánda aldursári. Hann var líka 15 og 16 ára þegar brotin voru framin. Tekið er fram að hann glími við umtalsverð þroskafræðileg frávik og veikleika sem hafa umtalsverð áhrif á líf hans á flestum sviðum. Einnig er tekið fram að hann sé leiðitamur og áhrifagjarn, en engu að síður metinn sakhæfur.

Er þessi væga þroskahömlun sögð hafa áhrif á allan hans skilning í daglegu lífi. Ekki talið að hefðbundin fangelsisrefsing sé viðeigandi heldur að hann fái stuðning og þjónustu sem fatlaðir einstaklingar eigi rétt á. Því metur dómurinn það sem svo að þrátt fyrir sakfellingu sé best að fresta ákvörðun um refsingu skilorðsbundið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert