Felldi fleiri hér á landi en spænska veikin

Mislingasmit uppgötvaðist síðast hérlendis árið 2019.
Mislingasmit uppgötvaðist síðast hérlendis árið 2019. mbl.is/​Hari

„Eins og tölurnar sýna var dánartíðnin gríðarlega há í þessum faröldrum og hærri en í spænsku veikinni,“ segir Magnús Gottfreðsson prófessor í smitsjúkdómum og yfirlæknir á Landspítalanum.

„Þetta er einkennandi fyrir einangruð samfélög eins og Ísland var á þessum tíma. Þegar mislingar berast í slík samfélög gerist það oft með svolítið löngu millibili og margir eru því ekki með neitt ónæmi. Þannig er búið að hlaða í bálköst sem kviknar svo í, ef þannig má að orði komast.“

Fyrsta smitið frá árinu 2019

Mislingafaraldrar voru skæðir á Íslandi á 19. öldinni. Árin 1846 og 1882 bárust mislingar til landsins og urðu afleiðingarnar afar sorglegar. Raunar eru þetta mestu mislingafaraldrar sem vitað er um í Íslandssögunni.

Fullorðinn einstaklingur sem er í ferðalagi á Íslandi greindist með mislinga á Landspítalanum á laugardaginn. Hann er nú í einangrun en að sögn Guðrúnar Aspelund sóttvarnalæknis kemur í fyrsta lagi í ljós í lok vikunnar hvort fleiri hafi smitast hér á landi.

Þetta er fyrsta mislingasmit sem greinist hérlendis frá árinu 2019.

Bárust með Dönum

Í grein í Læknablaðinu árið 2014 eftir Söndru Gunnarsdóttur þá læknanema og læknana Harald Briem og Magnús Gottfreðsson er varpað ljósi á hversu mannskæðir mislingarnir voru á Íslandi á 19. öld.

Árið 1846 létust rúmlega 3.300 Íslendingar og var það 1.600-2.000 umfram það sem vænta mátti. Í upphafi ársins höfðu Íslendingar verið 58.667 talsins en mislingarnir bárust til landsins í maí með Dönum sem komu í höfn í Hafnarfirði.

Stærsti hlutinn börn undir 4 ár

Í byrjun maí árið 1882 bárust mislingar til landsins frá Kaupmannahöfn með Helga Helgasyni snikkara sem tók sér far með póstskipinu Valdemar. Í júlí náði fjöldi dauðsfalla hámarki þegar 1.084 létust. 1.916 manns létust á Íslandi einungis yfir sumarmánuðina júní, júlí og ágúst 1882 og stærsti hlutinn var börn fjögurra ára og yngri. Einnig létust margar þungaðar konur bæði 1846 og 1882.

Barnadauði var auðvitað þekktur á Íslandi á þessum tíma og á árunum 1877-1881 létust að meðaltali 386 börn á fyrsta aldursári en vegna mislinga hækkaði talan í 1.010 árið 1882.

„19. öldin var einna verst og mjög mannskæð í þessu tilliti. Hvað gerist í samfélagi sem er einangrað en verður skyndilega fyrir innrás veiru sem er svona ofboðslega smitandi? Þá er þetta nánast eins og náttúruhamfarir og veiran fer út um allt á skömmum tíma með slæmum sýkingum, hárri dánartíðni og fósturlátum meðal barnshafandi kvenna.“

Nánar er rætt við Magnús Gottfreðsson í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert