„Líður eins og Stout hafi farið verst út úr þessu“

Fríða og bróðir hennar Arnar Freyr Guðmundsson sem er annar …
Fríða og bróðir hennar Arnar Freyr Guðmundsson sem er annar eigandi Stout. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enn lekur vatn inn í verslun Stout við Fellsmúla eftir stórbrunann sem varð þegar eldur braust út í bifreiðarþjónustu N1 um miðjan mánuð.

„Öll Stout-verslunin gjöreyðilagðist og húsnæðið er mjög illa farið. Það er enn þá að leka vatn í gegnum þakið þannig að gólfið er alltaf rennandi blautt. Síðan er enn að koma mikill raki úr veggjunum sem eru enn þá mjög bólgnir,“ segir Fríða Guðmundsdóttir, ein eiganda fataverslunarinnar Curvy og Stout.

Fataverslanirnar Curvy og Stout hafa að undanförnu verið reknar í sitthvoru verslunarrýminu við Fellsmúla. Curvy, kvennadeild verslunarinnar, í einu verslunarrými og Stout, karladeildin í öðru. Að sögn Fríðu fór betur en á horfðist hjá Curvy, þar sem allt slapp mjög vel, og því hefur sú deild verið í fullum rekstri frá því eftir brunann.

Verslanir Stout og Cyrvi mætast í horni Hreyfilshússins og kjarnans …
Verslanir Stout og Cyrvi mætast í horni Hreyfilshússins og kjarnans sem brann. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lekur enn í gegnum þakið  

„Allt sem við byggðum og smíðuðum þarna inn er meira og minna ónýtt þannig að við getum ekkert farið þarna inn alveg strax, sérstaklega ekki þar sem enn lekur í gegnum þakið,“ segir Fríða og útskýrir að verslun Stout hafi einungis verið opnuð fyrir um sex mánuðum.

Fríða segir að tæma þurfti allt rýmið áður en hafist var handa við að reyna að hreinsa það. Hún segir hreinsunarstarfið þó ekki hafa tekist vel því enn sé rosalega mikil lykt í verslunarrýminu.

„Mér líður eins og Stout hafi farið verst út úr þessu af öllum fyrirtækjunum sem eru fyrir neðan bifreiðaþjónustuna. Það lekur alveg rosalega mikið niður.“

„Illa lyktandi, blautur, skítugur og ógeðslegur“

Spurð hvort hægt hafi verið að bjarga einhverjum vörum segir Fríða að verslunareigendurnir hafi farið inn í rýmið daginn eftir brunann og tekið allt út sem hægt var að bjarga.

„Við reyndum að taka allt út. Sérstaklega fatnað sem var enn í pakkningunum, það var eitthvað enn í plastinu og annað enn í kössum, þannig að við drifum það allt út úr rýminu og fórum með það annað þar sem við gátum opnað pakkningarnar og leyft vörunum að anda.“

Hún segir fatnaðinn sem hékk inni í versluninni þó meira og minna ónýtan.

„Hann er illa lyktandi, blautur, skítugur og ógeðslegur. Maður bara fargar því,“ segir Fríða sem kveðst hafa gert tilraun til að hreinsa hluta fatnaðarins, en lyktin hafi því miður ekki náðst almennilega úr. „Það er ekki hægt að selja vöru sem er þannig.“

Bifreiðaþjónustan fyrir ofan Stout stóð í ljósum logum.
Bifreiðaþjónustan fyrir ofan Stout stóð í ljósum logum. mbl.is/Arnþór

Brunaútsala á næsta leiti 

Spurð hvort haldinn verði brunaútsala segir Fríða slíka sölu í fullum undirbúningi, enda nóg af vörum sem ekki eru illa lyktandi eftir stórbrunann.

„Við náðum að bjarga rúmlega helmingnum af lagernum okkar og þær flíkur getum við selt aftur. Við komum til með að selja þennan hluta lagersins á góðum afslætti.“

Þá segir Fríða drauminn alltaf hafa verið að reka kvenna- og karladeild verslunarinnar í einu og sama rýminu. Verslunareigendurnir hafi því ákveðið að sjá ljósið í myrkrinu og fylgja draumnum fast á eftir.

„Núna erum við í þeirri stöðu að við ætlum að finna stað fyrir brunaútsöluna og undirbúa hana. Við erum líka að undirbúa það að finna nýtt húsnæði fyrir bæði Stout og Curvy af því að við viljum að verslanirnar séu í sama rýminu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka