Flytja í Holtagarða eftir stórbrunann

Fríða og bróðir hennar Arnar Freyr Guðmundsson, sem er annar …
Fríða og bróðir hennar Arnar Freyr Guðmundsson, sem er annar eigenda Stout. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta hefur gengið vonum framar og fór betur en við héldum í fyrstu.“ 

Þetta segir Fríða Guðmundsdóttir, annar eigenda fataverslananna Curvy og Stout, í samtali við mbl.is. Verslanirnar eru til húsa í Fellsmúla 24 í Reykjavík, þar sem stórbruni varð í síðasta mánuði þegar eldur kviknaði í bifreiðaþjónustu N1.

Curvy og Stout voru reknar sín í hvoru verslunarrýminu við Fellsmúla, Curvy, kvennadeild verslunarinnar, í einu rými og Stout, karladeildin, í öðru. Engin starfsemi hefur verið í Stout eftir brunann enda gjöreyðilagðist verslunarrýmið í brunanum.

Starfsemin hjá Curvy hefur aftur á móti haldið áfram í Fellsmúlanum.

Opna í einu stóru rými í Holtagörðum í maí

„Nú er vinna komin á fullt að flytja báðar búðirnar úr Fellsmúlanum. Við erum búin að taka á leigu stórt pláss í Holtagörðum og stefnum á að opna bæði Stout og Curvy í einu stóru rými þar í maí,“ segir Fríða við mbl.is en Curvy verður opin í Fellsmúlanum þar til opnað verður í Holtagörðum.

Hún segir það hafa verið afar gott að vera með starfsemina hlið við hlið í Fellsmúla en það hafi samt verið í kortunum að einn daginn yrðu búðirnar sameinaðar í eina stóra verslun.

Fríða segir tryggingarnar bæta stóran hluta tjónsins sem varð í brunanum en ljóst sé að mikill kostnaður felist í því að flytja báðar verslanirnar í nýtt rými.

Síðustu daga og vikur hefur verið í gangi brunaútsala á vörum Stout en þeirri útsölu er nú lokið. Fríða segir að nokkuð vel hafi gengið að selja.

„Við höfum vonandi eignast einhverja nýja viðskiptavini og við bjóðum þá velkoma þegar við opnum í Holtagörðunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert