Eftirlitið gaf Wok on í Krónunni einn í einkunn

Heilbrigðiseftirlitið gerði ýmsar athugasemdir við Wok on í Krónunni.
Heilbrigðiseftirlitið gerði ýmsar athugasemdir við Wok on í Krónunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veitingastaður Wok on sem var hýstur í Krónunni á Granda fékk einn í einkunn af fimm í eftirlitsferð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur (HER) 5. desember. Þetta kemur fram í skýrslu eftirlitsins sem mbl.is hefur undir höndum.

Krónan sleit samstarfi sínu við veitingahúsakeðjuna í kjölfar aðgerðar lögreglu 5. mars sem beindist m.a. að hugsanlegu mansali. Davíð Viðarsson, áður Quang Lé, er skráður eigandi veitingastaðanna en hann situr nú í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarinnar.

Wok on var undir nánu eftirliti HER, m.a. vegna matvælalagers sem fannst í kjallara í Sóltúni 20 í september á síðasta ári. Félag í eigu Davíðs var með kjallarann á leigu og var grunur um að matvælin væru notuð á veitingastöðum sem voru einnig í hans eigu, þar á meðal Wok on og Pho Vietnam.

Vísbendingar um að handlaug væri lítið notuð

Heilbrigðiseftirlitið gerði ýmsar athugasemdir í skýrslunni, þar á meðal vegna matvæla sem átti að vera búið að henda. Voru það rækjur sem voru of gamlar og útrunnar núðlur í stóru plastboxi.

Þá gerði HER m.a. athugasemdir við að starfsmenn væru ekki í starfsmannafatnaði á staðnum, persónulegur fatnaður og munir væru geymdir í ræstiskáp inni á bás, hitastig í kæliborði væri of hátt, eggjastæða væri geymd utan kælis, hitastig í uppþvottavél væri ekki nógu hátt og innra eftirlit væri ekki virkt á staðnum.

Þá kom fram að handlaug væri þurr þegar eftirlitið hefði farið fram sem gæfi tilkynna að handlaugin væri ekki mikið notuð.

Einn í heildareinkunn

Heilbrigðiseftirlitið getur gefið einkunn fyrir hollustuhætti, matvæli og mengunarvarnir. Í skýrslunni er einungis gefin einkunn fyrir matvæli, sem í þessu tilfelli var einn af fimm mögulegum. Var heildareinkunn staðarins því einn. 

Fái veitingastaður núll í einkunn á að stöðva starfsemina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert