Þórdís fundar með Bankasýslunni

Þórdís hefur lýst yfir óánægju sinni með fyrirhuguð kaup Landsbankans …
Þórdís hefur lýst yfir óánægju sinni með fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, mun í dag eiga fund með Bankasýslu ríkisins. Til umræðu verður sú staða sem upp er komin vegna fyrirhugaðra kaupa Landsbankans á TM af Kviku banka.

Þetta segir Þórdís í samtali við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum.

„Nú hefur bankaráðið svarað Bankasýslu og þeir með málið hjá sér. Næsta skref hjá mér er að funda með stjórn Bankasýslunnar, sem ég geri í dag,“ segir Þórdís.

Svarar ekki hvort til greina komi að láta þau fjúka

Fyrir rúmri viku síðan sendi Banka­sýslan bréf til Þór­dís­ar og til bankaráðs Lands­bank­ans vegna fyr­ir­hugaðra kaupa bank­ans á TM.

Í því bréfi sagði að Bankasýslunni hefði verið alls ókunnugt um viðskiptin og að stofnunin tæki undir áhyggjur sem Þórdís hafði lýst yfir á samfélagsmiðlum í kjölfar tilkynningar Kviku um fyrirhugaða sölu.

Fjórum dögum eftir það bréf sendi Landsbankinn frá sér tilkynningu þar sem fram kem­ur að bank­inn hafi upp­lýst Banka­sýsl­una um fyr­ir­huguð kaup á TM frá miðju ári í fyrra.

Enn fremur að eng­ar at­huga­semd­ir hafi verið gerðar við áætlan­ir bank­ans.

Spurð hvort til greina komi af hennar hálfu að koma því áleiðis til Bankasýslunnar að reka bankaráð og bankastjóra vegna málsins segir Þórdís:

„Ég tek þetta mál í þeirri röð sem það birtist og næsta skref er að funda með Bankasýslunni og ég geri það í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert