Fær ekki að ganga laus meðan beðið er eftir dómi

Landsréttur er nú með mál mannsins á sinni dagskrá.
Landsréttur er nú með mál mannsins á sinni dagskrá. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur hefur ógilt úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur og úrskurðað karlmann í áframhaldandi gæsluvarðhald til 4. október, en hann var ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa stungið annan mann í Grafarholti í nóvember.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi manninn í mars í tveggja ára fangelsi fyrir að hafa veist að fórnarlambinu með hníf með þeim hætti sem lýst var í ákæru, en ekki var þó talið sannað að ásetningur hafi staðið til þess að hann ætlaði að bana þeim sem hann réðst að.

Ekki var hægt að fullnusta dóminn og þar með halda manninum í fangelsi þar sem ríkissaksóknari ákvað að áfrýja málinu í því augnarmiði að fá manninn sakfelldan fyrir tilraun til manndráps, en hámarksrefsing í slíku máli er allt að 10 ár.

Í úrskurði héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu að vafi léki á um hvort gæsluvarðhald yfir manninum væri enn talið nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna og hvort það stríði gegn réttarvitund almennings ef hann verður látinn laus á meðan máls hans er til meðferðar á áfrýjunarstigi. Var sá vafi metinn manninum í vil og því hafnað beiðni um áframhaldandi varðhald.

Ákæruvaldið féllst ekki á þessa niðurstöðu og kærði hana til Landsréttar sem sneri sem fyrr segir úrskurðinum við og að maðurinn skyldi sæta varðhaldi til 4. október, eða þangað til dómur í máli hans væri fallinn.

Í úrskurði Landsréttar er vísað til þess að maðurinn hafi stungið þann sem hann réðst að margsinnis með hníf. „Telja verður brot varnaraðila þess eðlis að nauðsynlegt sé með tilliti til almannahagsmuna að hann sæti gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir æðri dómi,“ segir í úrskurði Landsréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert