Fékk tónlistarbakteríuna sextán ára

Michael League er þriðji frá vinstri í miðjuröðinni og situr …
Michael League er þriðji frá vinstri í miðjuröðinni og situr hér ofan á sófabakinu. Ljósmynd/Brian Friedman

Bandaríska djasshljómsveitin Snarky Puppy snýr nú aftur til landsins og heldur tónleika í Eldborgarsal Hörpu á mánudaginn, hinn 22. apríl, klukkan 20 en hún kom fyrst til Íslands árið 2016 þegar hún hélt tónleika á sama stað.

Grammy-verðlaunahafinn, bassaleikarinn, hljómsveitarstjórinn og stofnandi Snarky Puppy, Michael League, hefur á síðustu árum safnað að sér myndarlegum hópi hæfileikaríkra tónlistarmanna á sviði djasstónlistar en alls mæta níu hljómsveitarmeðlimir að þessu sinni til landsins.

„Við skemmtum okkur svo ótrúlega vel þegar við komum síðast, og það er orðið töluvert langt síðan, þannig að tilgangurinn með þessu tónleikaferðalagi er að spila annaðhvort á stöðum sem við höfum ekki komið til lengi eða á stöðum sem við höfum aldrei heimsótt,“ segir League spurður að því hvað hafi orðið til þess að hljómsveitin ákvað að snúa aftur.

Snarky Puppy hefur fimm sinnum unnið til Grammy-verðlauna, oftast fyrir …
Snarky Puppy hefur fimm sinnum unnið til Grammy-verðlauna, oftast fyrir bestu samtímatónlistarplötuna án söngs. Ljósmynd/SilkyShots

Bætir hann því við að hljómsveitin sé til dæmis að fara að spila í fyrsta sinn í Eistlandi og í annað sinn á tuttugu árum í borgum eins og Reykjavík og Riga í Lettlandi. „Við reynum að heimsækja eins marga og ólíka staði í heiminum og við getum, sem er hreint út sagt dásamlegt.“

Undir ýmsum áhrifum

Segir League áhorfendur mega búast við stórkostlegri skemmtun í Hörpu en á lagalista tónleikanna er að finna blöndu af gömlum og nýjum lögum. Þá séu vanalega um tuttugu tónlistarmenn sem spili með hljómsveitinni en einungis um tíu manns sem ferðist með henni í einu.

„Þetta gerum við svo hver og einn hafi líka tíma fyrir sinn sólóferil eða fái tækifæri til að spila með öðrum listamönnum. Þetta er mín hljómsveit og ég vil gefa fólki svigrúm til að stofna jafnvel sína eigin hljómsveit og þetta fyrirkomulag hefur hentað okkur vel. Þetta er blanda af tónlistarmönnum víðs vegar að úr heiminum, flestir með uppruna í tónlistarmenningu þeldökkra í Bandaríkjunum en undir áhrifum frá mismunandi tónlistargreinum.“

Viðtalið í heild sinni má sjá á menningarsíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka