Gengur Hvalfjörð óvart með 210 kíló fyrir Píeta

Bergur með sleðann, en í ljós kom að sleðinn sjálfur …
Bergur með sleðann, en í ljós kom að sleðinn sjálfur vegur um 110 kg og er þyngdin því meira en tvöfölduð. Ljósmynd/Aðsend

„Besti vinur minn missti mömmu sína fyrir að verða einu og hálfu ári síðan. Hún var búin að glíma mikið við andleg veikindi og mig langaði fyrst og fremst að heiðra minningu hennar með þessu og í gegnum Píeta.“

Þetta segir Bergur Vilhjálmsson, sem hyggst ganga inn Hvalfjörðinn frá Akranesi og aftur út, 100 kílómetra, með sleða hlaðinn 100 kílóum, í samtali við mbl.is.

Vita oft ekki hvað Píeta-samtökin eru

Bergur starfar hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sem slökkviliðs-, og sjúkraflutningamaður.

Hann kveðst sinna ótrúlega mörgum útköllum hjá bæði fullorðnu og ungu fólki sem sé með sjálfskaðandi hegðun.

„Og það er svo oft sem við erum að fara í þessi útköll þar sem fólk veit ekki einu sinni af Píeta-samtökunum, svo mig langaði líka bara til þess að vekja athygli á þessu starfi sem þau eru að gera.“

Bergur hyggst hefja gönguna frá líkamsræktarstöðinni Ultraform á Akranesi klukkan 14 á fimmtudag og ljúka henni í Ultraform-stöðinni í Grafarholti klukkan 14 á laugardag. Mun gangan því taka 48 klukkustundir.

Léttir af farginu fyrir hverja 10 km

„Ástæðan fyrir því að ég er að draga þennan sleða er að öll erum við að draga bagga á eftir okkur. Það hafa allir sinn djöful að draga, hafa lent í einhverju og kannski ekki unnið úr áföllum. Þannig sleðinn er eins konar myndlíking við erfiðleika sem fólk er að draga á eftir sér í gegnum ævina,“ segir Bergur.

Sleðinn mun verða hlaðinn lóðum sem vega alls 100 kg en auk þess verður Bergur í 10 kg þyngingarvesti. Fyrir hverja 10 kílómetra mun hann létta sleðann um 10 kg.

Á vesti hans eru tíu einkennisorð fyrir andlega örðugleika og mun hann fjarlægja eitt þeirra samhliða hverju 10 kg lóði. Sleðinn verður því léttari með hverjum 10 kílómetrum og léttir Bergur þannig raunverulega og táknrænt af sér farginu. 

Á vestinu eru tíu orð yfir það sem fjöldi fólks …
Á vestinu eru tíu orð yfir það sem fjöldi fólks er að burðast með og mun Bergur fjarlægja eitt orð fyrir hver 10 kg. Ljósmynd/Aðsend

Þyngdin tvöfaldaðist óvart

Bergur segir það aftur á móti hafa verið smá skell í síðustu viku er hann fékk sleðann og áttaði sig á því að sleðinn sjálfur væri um 110 kg og þyngdin þar með meira en tvöfölduð á við það sem hann hafði ætlað sér – eða alls 210 kg. 

„Ég var nú ekki búinn að prófa þessa þyngd þar til ég fékk sleðann og það var smá högg. Þetta er alveg þungt. En þetta er alveg gerlegt,“ segir hann og hlær. 

Spurður hvort það sé nægur tími til að ganga svo langan veg, hlaðinn svo mikilli þyngd, hlær hann og segir það munu koma í ljós. Hann telji það þó ríflegan tíma sem geri einnig ráð fyrir því að hann geti hvílt sig og nærst í húsbíl sem muni keyra á eftir honum.

Mannskapurinn auðveldar gönguna

„Hann er bæði hugsaður til að vernda mig frá umferð og svo er hann bara með varning fyrir mig og smá skjól því ég bjóst við vondu veðri, en það er svo bara spáð ágætis veðri.“

Göngunni verður streymt á Facebook-síðunni Söfnunarganga fyrir Píeta og segir Bergur að allir þeir sem vilji séu velkomnir til að slást í för og ganga með en hægt verður að fá far til baka á u.þ.b. tveggja klukkutíma fresti.

„Því stærri mannskapur, því auðveldara verður þetta.“

Hægt er að styrkja söfnun Bergs með því að leggja inn á eftirfarandi reikning: 

Reikningsnúmer: 0301-26-041041

Kennitala: 410416-0690.

Embætti land­lækn­is bend­ir á að mik­il­vægt sé að þeir sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir segi ein-hverj­um frá líðan sinni, hvort sem er aðstand­anda eða hafi sam­band við Hjálp­arsíma Rauða kross-ins 1717, eða á net­spjalli 1717.is, við hjúkr­un­ar­fræðing í net­spjalli á heilsu­vera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-sam­tak­anna s. 552-2218. Píeta-sam­tök­in bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyr­ir aðstand­end­ur þeirra sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir.

Fyr­ir þau sem misst hafa ást­vin í sjálfs­vígi bend­ir land­læknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorg-armiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-sam­tök­un­um í síma 552-2218.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka