Karlmaðurinn sá eini með stöðu sakbornings

Lögreglu barst útkall aðfaranótt mánudags.
Lögreglu barst útkall aðfaranótt mánudags. mbl.is/Þorgeir

Einn sakborningur er í gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að andláti konu í fjölbýlishúsi á Akureyri, að sögn Skarphéðins Aðalsteinssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Karlmaðurinn sem sætir gæsluvarðhaldi er sá eini með stöðu sakbornings í málinu.

Lögregla var kölluð út að fjölbýlishúsi á Akureyri klukkan 4.30 aðfaranótt mánudags. Lögregluþjónum sem komu á vettvang var vísað á meðvitundarlausa konu. Hófust endurlífgunartilraunir þegar í stað en þær báru ekki árangur.

Halda spilunum þétt að sér

Aðalsteinn kvaðst ekki geta gefið upplýsingar um hvort fleiri hefðu verið í íbúðinni þegar konan lést, hvort játning lægi fyrir í málinu, hvort lögreglan hefði áður þurft að hafa afskipti af manninum sem sætir gæsluvarðhaldi, á hvaða aldri maðurinn væri, á hvaða aldri konan hefði verið, hver hefði tilkynnt málið til lögreglu eða hver tengslin væru á milli mannsins og konunnar.

Lögreglan á Norðurlandi eystra naut aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Að sögn Skarphéðins er tæknideildin komin aftur suður og er hún að mestu búin með sína rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka