Segir skýrsluna merki um vanþekkingu á rekstri BÍ

Hjálmar Jónsson, fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson, fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands. mbl.is/​Hari

Hjálm­ar Jóns­son, fyrr­verandi fram­kvæmda­stjóri Blaðamanna­fé­lags Íslands, segir skýrslu KPMG fyrir hönd Blaðamannafélagsins vera aðför að æru sinni beint og milliliðalaust. Frekar ætti að skoða hversu mikið hann hafi sparað félaginu í útgjöld.

Í aðsendri grein á Vísir.is segir Hjálmar hvorki KPMG né óháðan bókara hafa leitað skýringa hjá sér varðandi fjármál félagsins á árunum 2014-2023. Hann segir bókarann greinilega hafa fengið fyrirmæli um að skoða bara sumt en ekki annað í bókhaldi félagsins og þá einkum það sem hægt væri að gera tortryggilegt. 

Hann þvertekur fyrir að hafa skarað eld að eigin köku og kveðst afar stoltur af þeim árangri sem hann hafi náð í starfi sínu við að byggja upp fjárhag félagsins og starfsemi þess. 

Segir þörf á fleira fólki fyrir frekari aðgreiningu

Hjálmar gegndi starfi framkvæmdastjóra félagsins frá árinu 2003 en hann gegndi einnig formennsku í félaginu á árunum 2010-2020. Var Hjálmari sagt upp sem framkvæmdastjóra félagsins í janúar á þessu ári eftir ágrein­ing á milli hans og for­manns fé­lags­ins, Sigríðar Daggar Auðunsdóttur. 

Hann segir skýrsluna bera merki um augljósa vanþekkingu á starfsemi og rekstri félagsins sem sé jú lítið og hafi ekki efni á mikill yfirbyggingu. Ekki séu nema tíu ár síðan ákveðið hafi verið að vera með tvö starfsgildi innan félagsins.

„Skýr aðgreining var alltaf milli starfa bókara og framkvæmdastjóra, en frekari aðgreining starfa hefði þurft að felast í því að skipta framkvæmdastjóra í tvennt eða þrennt eftir atvikum og kröfum 4400 staðalsins, sem KPMG vísar til!“

Núverandi formaður hafi einnig fengið fyrirframgreiðslu

Þá gefur hann ekki mikið fyrir athugasemdir um fyrirframgreidd laun sín enda sé ekkert varhugavert við að starfsfólk biðji um fyrirframgreiðslu.

„Þetta er eðlileg fyrirgreiðsla atvinnurekanda við starfsmenn sína, sem markast meðal annars af því að núverandi formaður bað mig um að fyrirframgreiða laun. Ég varð að sjálfsögðu við því án athugasemda, enda ekki tiltökumál,“ segir Hjálmar

Samkvæmt skýrslunni millifærði Hjálmar tæpar 9,2 milljónir á sjálfan sig á sjö árum. Greiðslurnar hafi ekki komið fram á launagreiðslum og því ekki hægt að rekja í bókhaldi að greiðslurnar tengist fyrirframgreiddum launum.

Voru greiðslurnar allt frá 100 þúsund krónum upp í 1,5 milljónir hverju sinni og voru ekki endurgreiddar fyrr en allt að sex mánuðum liðnum og fóru þá ekki í gegn um launakerfi heldur sem beinar millifærslur eins og um endurgreiðslu á láni væri að ræða.

Segir í skýrslu KPMG að framkvæmdastjóri hafi ekki heimild til að fyrirframgreiða sér laun eða til annarra lánveitinga án samþykktar stjórnar. 

„Ég á ekki að njóta minni réttinda en aðrir félagar“

Þá segir Hjálmar það koma sér spánskt fyrir sjónir að fjölmiðlastyrkur sem honum hafi verið greiddur sé til umtals í skýrslunni. Kemur þar fram að Hjálmar hafi átt að fá 23 þúsund krónur mánaðarlega. Í staðinn hafi greiðslurnar verið greiddar út 1-2 á ári og eitt árið hafi verið oftekinn styrkur að allt að 138 þúsund krónum.

Segir Hjálmar ekkert í kjarasamningum kveða á um hvernig og hvenær árs blaðamannastyrkur skuli greiddur.

„Það var ekki um neina fyrirframgreiðslu að ræða, enda er ekkert í kjarasamningum sem segir fyrir um það hvernig og hvenær ársins þeir skuli greiddir. Ég á ekki að njóta minni réttinda en aðrir félagar í BÍ sem vinna samkvæmt kjarasamningum félagsins.“

Sparað tugi milljóna á ellefu árum

Segir hann einnig af og frá að gera athugasemd við greidd ritlaun, en í skýrslunni segir að ekki hafi fundist samningar með skýringum um unnin störf allra sem slík laun hafi fengið. Að sögn Hjálmars var einungis tveimur ritverkefnum útvistað og launin verið skammarlega lág ef eitthvað.

Öllum öðrum verkefnum hafi hann sinnt sjálfur þ. á m. verkefnum formanns um 11 ára skeið án þess að taka laun fyrir og því megi frekar taka saman sparnað yfir þessi ellefu ár sem hlaupi að minnsta kosti á tugum milljóna.

Þá setur hann einnig spurningarmerki við athugasemd skýrslunnar um að ekki hafi verið samþykki fyrir hluta af greiddum styrkjum úr háskóla-, verkefna-, og heilbrigðisstyrkjasjóð, eða um 7,8 milljónum í allt.

„Það er alrangt að ekki hafi verið samþykki fyrir öllum greiðslum úr sjóðum félagsins. Allar greiðslur voru yfirfarnar af mér og skrifstofustjóra félagsins og greiddar í samræmi við reglugerð og starfsreglur sjóðanna. Hvers vegna í ósköpunum hefði ég átt að vera að greiða styrki til fólks sem ekki átti rétt á þeim?“

Þarf að leita heimildar fyrir kaffi og vínarbrauði árlega?

Þá gagnrýnir Hjálmar ábendingu í skýrslunni um kostnað tengdum veitingum og ferðum fyrir lífeyrisþega sem hafi kostað 7,6 milljónir yfir níu ára tímabil sem hafi m.a. verið varið í föstudagskaffi, vorferðir og jólaboð. Segir í ábendingunni að ekki hafi fundist samþykki stjórnar fyrir slíkum kostnaði sem tengist í þokkabót ekki starfsemi félagsins með beinum hætti.  

Spyr Hjálmar hvernig það megi fullyrða að ráðstöfun fjármunanna hafi verið heimildarlaus, þegar föstudagshópurinn hafi verið virkur í tuttugu ár en athugun KPMG spanni aðeins sl. tíu ár.

„Þurfti að leita heimildar á hverju ári eða jafnvel í hverri viku eða í hvert sinn sem stjórnarmenn fengu sér kaffi og vínarbrauð á föstudögum þegar stjórn BÍ fundaði?“

Segir hann stefnu félagsins nú aðra þar sem enginn nenni lengur að sinna bakarís- og búðarferðum fyrir vinnutíma á föstudögum, eins og hann hafi gert í tuttugu ár. Klúbburinn sé því að leggjast af og þar að auki njóti lífeyrisþegar ekki lengur réttinda í sjóðum félagsins að því er virðist.

„Sú ákvörðun virðist tekin fyrirvaralaust, með afturvirkum hætti og án umfjöllunar í stjórn félagsins. Kolólöglegt að öllu leyti.“

Nú standi einnig til að svipta lífeyrisþega atkvæðisrétti í félaginu og þannig svipta þá réttindum til þess að hafa áhrif í félaginu sínu og á ráðstöfun fjármuna þess.

Hlægileg upphæð

Í skýrslunni er gerð athugasemd við að Hjálmar hafi árið 2018 byrjað að greiða sér ökustyrk umfram það sem samið hafi verið um í launakjörum hans, sem nam alls 3,2 milljónum á árunum 2018-2023 án samþykktar stjórnar félagsins. Er einnig gerð athugasemd við að greiðslur hafi verið gerðar til tengdra aðila vegna aksturs og þrifa að fjárhæð 1,6 milljóna á árunum 2014-2018 án heimildar frá stjórn BÍ og að ekki liggi fyrir eignaskrá. 

Kveðst Hjálmar hafa fengið fastan akstursstyrk upp á 40 þúsund krónur fyrir akstur innan höfuðborgarsvæðisins auk aukastyrks fyrir utanbæjarakstur í tengslum við viðhald á orlofshúsum. Kveðst hann ef eitthvað er hafa rukkað minna fyrir kílómetrafjölda auk þess sem hann hafi sparað félaginu gríðarlegan kostnað með því að sinna sjálfur viðhaldsstörfum á orlofshúsum félagsins. 

„Útgjöld upp á 1,6 milljónir yfir tíu ára tímabil eru nánast hlægileg í þessu samhengi og kannski frekar efni til að skoða hvað ég sparaði félaginu mikil útgjöld með því að sinna þessum verkefnum sjálfur samhliða annasömu starfi á skrifstofu félagsins.“

Þá eru í skýrslunni einnig gerðar athugasemdir við kaup á símum og tölvum, en alls hafi átta símar og tíu tölvur verið keyptar á árunum 2014-2018 fyrir framkvæmdastjórann. Segir Hjálmar það nánast óskiljanlegt að útgjöld vegna síma og tölvukaupa séu öll skrifuð á hann. Síma- og tölvubúnaður hafi verið endurnýjaður með eðlilegum hætti þegar nauðsynlegt var og búnaður keyptur fyrir nýja starfsmenn.

Sú greiðsla sem hann sé skráður fyrir upp á 500 þúsund krónur sé ekki endurgreiðsla heldur hafi hann keypt tölvu, sem félagið hafði látið honum í té til starfa, fullu verði af félaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka