Tók nektarmyndir af manni í sturtuklefa

Maðurinn var dæmdur fyrir að mynda annan mann þar sem …
Maðurinn var dæmdur fyrir að mynda annan mann þar sem hann baðaði sig nakinn í sturtuklefa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm yfir karlmanni í síðustu viku fyrir að brjóta gegn kynferðislegri friðhelgi annars karlmanns með því að mynda hann án samþykkis hans og vitneskju, þar sem hann baðaði sig í sturtuklefa í búningsaðstöðu. 

Hlaut maðurinn 30 daga skilorðsbundinn dóm og var honum gert að greiða brotaþola 400 þúsund krónur í miskabætur auk vaxta. Er kveðið á um í dómnum að fullnustu refsingar skuli frestað og að hún falli niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð.

Er honum einnig gert að greiða málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola. 

Játaði brotið og eyddi myndunum

Brotið átti sér stað í júlí 2022 en ákærði játaði skýlaust brotin á rannsóknarstigi málsins sem og fyrir dómi og eyddi ljósmyndunum sem um ræðir og voru þær því hvorki birtar né fóru þær í dreifingu og segir í dómsuppkvaðningu að hann hafi lagt sig fram um að upplýsa málið.

Fór hann þó fram á að upphaflega krafa brotaþola um 1 milljón króna í miskabætur.

Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að maðurinn hefði brotið gróflega gegn friðhelgi brotaþola sem hefði átt sér einskis ills von, hefði hann takmarkað það tjón sem af saknæmri háttasemi hans leiddi með því að eyða ljósmyndunum er hann var staðinn að verki. Þótti því rétt að upphæðin yrði lækkuð í 400 þúsund. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka