Lýðheilsuverðlaun forsetans afhent

Verðlaunin eru veitt í tveimur flokkum fyrir mikilsvert framlag til …
Verðlaunin eru veitt í tveimur flokkum fyrir mikilsvert framlag til eflingar lýðheilsu á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur og fagstjóri Sorgarmiðstöðvar, og Grunnskólinn á Ísafirði hafa hlotið Íslensku lýðheilsuverðlaunin árið 2024. Afhendingin fór fram við hátíðlega athöfn á Bessastöðum og voru verðlaun veitt af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. 

Verðlaunin voru veitt í tveimur flokkum fyrir mikilsvert framlag til eflingar lýðheilsu á Íslandi, að því er segir í tilkynningu. 

Verðlaunin stofnuð árið 2023

Stofnað var til verðlaunanna árið 2023 að frumkvæði forseta Íslands og í samstarfi við Geðhjálp, embætti landlæknis, heilbrigðisráðuneytisins og Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands. 

Í febrúar gafst almenningi færi á að senda inn tillögur að verðugum verðlaunahöfum. Valnefnd var skipuð til að fjalla um tillögurnar og til að velja að lokum einn einstakling og eina starfsheild til þess að verðlauna. 

Við lok athafnarinnar færði Alma Möller landlæknir forseta Íslands blómvönd sem þakklætisvott fyrir störf í þágu eflingar lýðheilsu Íslendinga.

Landlæknir afhendir forseta þakkarvönd.
Landlæknir afhendir forseta þakkarvönd. Ljósmynd/Aðsend

Unnið í mörg ár að sjálfvígsforvörnum

Forseti Íslands afhenti Guðrúnu Jónu Guðlaugsdóttur, hjúkrunarfræðingi og fagstjóra Sorgarmiðstöðvar, einstaklingsverðlaunin að þessu sinni.

Guðrún hefur unnið að því að opna umræðu um sjálfsvíg á opinberum vettvangi, unnið í gegnum félagssamtök að forvörnum sjálfsvíga og stutt við aðstandendur þeirra sem falla fyrir eigin hendi. Hún stýrir nú verkefni Lífsbrúar, miðstöðvar sjálfsvígsforvarna.

30 ára fjallgönguverkefni

Kristján Agnar Ingason tók á móti starfsheildarverðlaunum fyrir hönd Grunnskólans á Ísafirði fyrir fjallgönguverkefni sem skólinn hefur haldið úti í þrjátíu ár.

Á hverju hausti fer hver bekkur í fjallgöngu innan Skutulsfjarðar. Við upphaf tíunda bekkjar er farið í tveggja daga Hornstrandagöngu, þannig hafa nemendur sem ljúka grunskóla, gengið öll helstu fjöll í nágrenninu.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra afhenti verðlaunin.

Guðrún, Guðni og Kristján.
Guðrún, Guðni og Kristján. Ljósmynd/Aðsend

Gleym mér ei og Traustur kjarni tilnefnd

Styrktarfélagið Gleym mér ei var tilnefnt til verðlaunanna en félagið styður við foreldra og aðstandendur þeirra sem missa barn á meðgöngu, í fæðingu eða á fyrstu mánuðum eftir fæðingu. 

Hjá félaginu er hægt að leita stuðnings í gegnum ráðgjafasamtöl, jafningjafræðslu, samverustundir og almenna fræðslu. 

Félagssamtökin Traustur kjarni hlaut einnig tilnefningu en samtökin standa fyrir námskeiðum í jafningjastuðningi. Þar er kennd samskiptatækni sem hjálpar við að greina áhrif áfalla á eigin getu til að mynda uppbyggileg sambönd.

Gunnhildur og Ólafur tilnefnd

Knattspyrnukonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var tilnefnd til einstaklingsverðlauna, en hún hefur unnið óeigingjarnt starf í þágu fatlaðra og rutt þeim braut til þátttöku í hópíþróttum. 

Þannig hefur hún lagt áherslu á að einstaklingar með sérþarfir eigi rétt á sömu tækifærum og aðrir til iðkunar íþróttagreina. 

Ólafur Elí Magnússon var einnig tilnefndur, en hann hefur unnið margvísleg störf í þágu íþróttastarfa í Rangárþingi eystra í rúm 25 ár. 

Hann hefur sinnt íþróttakennslu í Hvolsskóla frá 1995 og haldið íþróttaskóla fyrir börn á aldrinum fjögurra til sex ára. Einnig hefur hann haldið sundnámskeið og þjálfað íbúa í borðtennis, blaki og badminton, meðal annars. 

Þau tilnefndu hlutu viðurkenningarskjal og fjallað verður um störf þeirra í sjónvarpsþætti RÚV í tilefni verðlaunaafhendingarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert