„Þetta er hreint og klárt skemmdarverk“

Útlagar eftir Einar Jónsson er nú gyllt.
Útlagar eftir Einar Jónsson er nú gyllt. mbl.is/Óttar

Skemmdarverk hefur verið unnið á listaverkinu Útlagar eftir Einar Jónsson sem stendur við Hólavallakirkjugarð í Reykjavík.

Svo virðist sem einhver hafi málað eða spreyjað styttuna gyllta, en óvíst er nákvæmlega hvenær það hefur verið gert.

„Þetta er hreint og klárt skemmdarverk og hrikalegt þegar þetta er gert,“ segir Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna hjá Listasafni Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.

Annað verk Einars sem er skemmt

„Það var gert svipað fyrir ekki svo löngu við Brautryðjandann, sem er líka verk eftir Einar, sem er undir Jóni Sigurðssyni.“ 

Sigurður var sjálfur fyrst að heyra af skemmdarverkinu á Útlögum í samtali við blaðamann mbl.is.  

Hann segir að hann eigi sjálfur eftir að fara á svæðið og skoða styttuna. Sérfræðingar þurfa svo að meta tjónið og svo verður lagt í hreinsunarstarf við allra fyrsta tækifæri.

mbl.is/Óttar

Nokkurra daga verk að laga

Sigurður Trausti segir að ef þetta er sambærilegt skemmdarverk og var gert á Brautryðjandann, þá geti tekið nokkurra daga vinnu að lagfæra styttuna og færa hana í upprunalegt horf.

Hann segir að hreinsunarstarf við Brautryðjandann hafi gengið nokkuð vel en Útlagar sé mun stærra verk.

Útlagar eftir Einar Jónsson stendur við Hólavallakirkjugarð á horni Suðurgötu og Hringbrautar. 

„Verkið sýnir karlmann sem ber líflausa konu á bakinu og barn á handlegg og er áhersla lögð á þreytulegt göngulag mannsins og sorgmætt andlit,“ segir um verkið á vef Listasafns Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka