Þórdís: Ekki ákjósanlegt að segja sig frá EES-samningnum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir að ekki sé ákjósanlegt að Ísland segi sig frá EES-samningnum. Þá segir hún einnig að alþjóðleg samvinna sé mikilvæg á tímum óstöðugleika í alþjóðakerfinu. Þetta kom fram á málþingi í tilefni af 30 ára afmæli EES-samningsins sem var haldið á Grand hóteli í Reykjavík í dag.

Þórdís fór yfir hvað EES-samningurinn hefur gert fyrir Ísland eins og að veita aðgang að innri markaði Evrópu sem hefur stuðlað að auknum vexti og velgengni á Íslandi.

Þá beindi Þórdís sjónum sínum að þeim sem vilja að Ísland segi sig frá EES-samningnum. Hún sagði að ekki sé hægt að stökkva frá borði þegar lagaumgjarðir EES henti ekki íslenskum kringumstæðum. Þó svo að það megi alltaf gera betur sé ekki ákjósanlegt fyrir Ísland að rifta samningnum. Það myndi útiloka Íslendinga frá innri markaði Evrópu.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi

Ísland haldi áfram að vera leiðandi í EES

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hélt einnig erindi á málþinginu. Hún beindi sjónum sínum að því hvað EES-samningurinn hefur verið gagnlegur fyrir Ísland á sviði nýsköpunar og menntunar.

Þá nefndi Áslaug að háskólar landsins hafi fengið tækifæri til að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi með erlendum háskólum. Það hafi gefið íslenskum nemum tækifæri til að fara í skiptinám erlendis ásamt því að íslenskir háskólar hafa tekið á móti erlendum skiptinemum.

Áslaug lokaði ávarpi sínu með því að undirstrika að Ísland muni halda áfram að vera leiðandi í EES-samningnum, sérstaklega á sviði nýsköpunar- og menntamála. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert