„Þetta er vísbending um að það er heilmikil hreyfing á fylginu,“ segir Birgir Guðmundsson dósent við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, spurður út í sveiflur á fylgi stjórnmálaflokka í tveimur skoðanakönnunum sem gerðar voru með stuttu millibili. Í nýrri könnun sem Fréttablaðið, Stöð 2 og Vísir létu gera á mánudagskvöld er Sjálfstæðisflokkurinn stærstur með 34,6% fylgi og Píratar með 19,9%. Í könnun MMR sem birtist á mánudag var fylgi Pírata mest eða 21,6% og Sjálfstæðisflokkurinn með 20,6% fylgi.
Birgir bendir á að könnun MMR sé svokölluð „netpanel könnun“ og er tekin yfir lengra tímabil og svarhlutfallið er hátt. „Í þeirri könnun næst ekki sú dægursveifla sem kann að vera í því umróti sem er núna.“
Fréttablaðskönnunin er hins vegar „punktkönnun“ sem sýnir hitastigið í pólitíkinni akkúrat á þeim tíma sem hún er tekin, að sögn Birgis.
„Það er athyglisvert hvað það eru margir óákveðnir í þeirri könnun. Fólk er að gera upp hug sinn og þar af leiðandi myndi maður ætla að frammistaða og hvernig kosningabaráttan hjá flokkunum verður muni skipta gríðarlega miklu máli,” segir Birgir.