Flugvöllur í Vatnsmýri þó að spítali verði á Vífilsstöðum

Lilja Alfreðsdóttir.
Lilja Alfreðsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrátt fyrir að Framsóknarflokkurinn leggi áherslu á að byggður verði nýr Landspítali á nýjum stað þá breytir það ekki afstöðu flokksins til þess að flugvöllurinn eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni.

Þetta staðfesti Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is. Hún leiðir lista Framsóknar í Reykjavík suður í komandi alþingiskosningum.

Þó að spítalinn fari upp á Vífilsstaði, eins og við leggjum til, þá breytir það ekki þeim áformum. Flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýrinni,“ sagði Lilja.

Við viljum að uppbyggingin á Landspítalanum verði kláruð. Við viljum að það sé skoðað hvort við getum farið að reisa nýtt þjóðarsjúkrahús sem tekur skemmri tíma en það sem er að gerast þarna. Það er búið að tala um að reisa nýtt sjúkrahús þarna í fjölda, fjölda ára og við erum ekki komin lengra en þetta,“ bætti Lilja við.

Hösk­uld­ur Þór­halls­son, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, lagði í síðustu viku fram frum­varp um að Reykja­vík­ur­flug­völl­ur skuli starf­rækt­ur í Vatns­mýri í Reykja­vík. Þar segir meðal annars: „Er Reykjavíkurflugvöllur afar mikilvægur fyrir sjúkraflug með sjúklinga af landsbyggðinni á Landspítalann og þjónar sem slíkur sem miðstöð sjúkraflugs á landinu og hefur mikilvægi hans ítrekað sannast á undanförnum árum.“

Ályktað var á flokksþingi Framsóknarmanna í byrjun október að „vegna þjóðar-, almennings- og öryggishagsmuna leggur Framsóknarflokkurinn áherslu á að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert