Fljúga með ferðamenn í kringum tunglið

Bandaríkjamenn hafa ekki sent fólk að tunglinu frá því snemma …
Bandaríkjamenn hafa ekki sent fólk að tunglinu frá því snemma á áttunda áratug síðustu aldar. AFP

Bandaríska fyrirtækið SpaceX mun fljúga með tvo óbreytta borgara í kringum tunglið á næsta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Ferðin er áætluð í lok næsta árs. Elon Musk, forstjóri SpaceX, segir að ferðamennirnir tveir hafi þegar greitt „umtalsvert staðfestingargjald“.

„Þarna er komið tækifæri fyrir mannfólk til að snúa aftur langt út í geiminn í fyrsta sinn í 45 ár,“ segir Musk.

Ferðamennirnir tveir hafa ekki verið nafngreindir. Flaugin sem þeir fljúga í er ný og fer í sína fyrstu ómönnuðu könnunarferð síðar á þessu ári. 

Musk segir að samstarf við Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, hafi gert þessa áætlun að veruleika. Farþegarnir tveir munu fara „hraðar og lengra út í sólkerfið en nokkur annar hefur gert.“

Musk vill ekki gefa upp nöfn fólksins en segir að það þekkist og sé ekki frá Hollywood. „Eins og geimfarar Apollo áður munu þessir einstaklingar ferðast út í geiminn með vonir og drauma mannkynsins.“

Fólkið mun þurfa að gangast undir heilsufarsskoðun fljótlega og hefja svo stífa þjálfun síðar á árinu. Að sögn Musk áttar það sig á áhættunni sem fylgir geimferðum.

Flauginni með farþegunum tveimur verður flogið af þjálfaðri áhöfn í kringum tunglið og svo lengra út í geiminn áður en snúið verður aftur til jarðar. Ekki verður reynt að lenda á tunglinu.

Bandaríkjamenn hafa ekki sent fólk að tunglinu síðan á áttunda áratugnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert