Nemendur í HÍ reistu tjaldbúðir án leyfis

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands.

Hópur nemenda reisti í nótt tjaldbúðir í leyfisleysi fyrir utan aðalbyggingu Háskóla Íslands til stuðnings Palestínu.

Lögreglu barst tilkynning um gjörninginn klukkan tvö í nótt, mætti á vettvang og fékk mótmælendur til að yfirgefa lóðina.

„Þeim var vísað frá því það voru engin leyfi sem þau gátu framvísað um að þau mættu hafa afnot af þessu svæði. Við fórum fram á að þau myndu útvega sér leyfi áður en þau myndu halda áfram með þennan gjörning sinn,“ segir Unnar Már Ástþórsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Mótmæli til stuðnings Palestínu hafa verið nokkuð algeng síðan stríðið …
Mótmæli til stuðnings Palestínu hafa verið nokkuð algeng síðan stríðið á milli Ísraels og hryðjuverkasamtakanna Hamas hófst þann 7. október. Mynd tengist frétt ekki beint. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sami hópur og fyrir utan Alþingi

Aðspurður segir Unnar að allt hafi gengið vel fyrir sig og að hópurinn hafi farið þegar lögregla var búin að ræða við hópinn. Í skýrslu lögreglu kom fram að um sama hóp væri að ræða og í mótmælum sem hafa átt sér stað fyrir utan Alþingi. 

Ekki kemur fram í skýrslunni hversu margir einstaklingar voru í hópnum, en af myndum af samfélagsmiðlum að dæma þá var hann nokkuð fámennur.

Búinn var til viðburður á Facebook til að auglýsa gjörninginn og þar kom fram að nemendum Háskóla Íslands væri boðið að tjalda á stóra grasfletinum fyrir framan aðalbygginguna til að standa með Palestínu. Þá kom einnig fram að gjörningurinn væri í takt við það sem sé að gerast í háskólum vestanhafs og Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert