Breytingar á skipulagi fréttadeildar RÚV

Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóri Rúv, segir að breytingar hafi verið …
Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóri Rúv, segir að breytingar hafi verið kynntar starfsmönnum Ríkisútvarpsins. mbl.is/Sigurður Bogi

Ríkisútvarpið vinnur nú að breytingum innanhúss sem snúa að því að mynda einingu sem heldur utan um ritstjórnir allra fréttatengdra þátta í útvarpi og sjónvarpi. 

Þetta staðfestir Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóri RÚV, í samtali við mbl.is og bætir við að breytingarnar hafi þegar verið kynntar fyrir starfsmönnum Ríkisútvarpsins. 

Binda vonir við að ná betri yfirsýn

Aðspurður segir hann vonir standa til að með þessu fáist meira ritstjórnarlegt samtal og aukinn stuðningur fyrir hverja ritstjórn fyrir sig. 

„Betri yfirsýn yfir það hvaða mál eru tekin til umfjöllunar og þá erum að vonast til að sjá líka hvar við erum með skallabletti. Betri yfirsýn yfir það hvaða viðmælendur eru að koma til okkar og betri nýtingu á viðtölum þannig að það séu ekki margar ritstjórnir að eltast við sama viðmælandann eða sama viðtalið,“ segir Heiðar og bætir við: 

„Þannig að þetta snýst líka um að bæta nýtingu á efni og svoleiðis.“ 

Samskonar breyting áður verið reynd

Eins og fram kemur hér á undan snýr breytingin að því að mynda einingu sem heldur utan um fréttatengda útvarps- og sjónvarpsþætti. Eru þetta ýmist daglegir þættir, vikulegir þættir eða þættir sem eru sjaldnar á dagskrá. 

Daglegu þættirnir eru Spegillinn, Kastljós, Þetta helst og Morgunútvarpið á Rás 2. Vikulegu þættirnir eru Heimskviður, Vikulokin og Silfrið og þeir þættir sem eru sjaldnar á dagskrá eru Torgið og Kveikur. 

Spurður hvort samskonar breyting hafi ekki áður verið reynd segir hann að fyrir mörgum árum hafi umræddir þættir heyrt undir fréttastofu. Skipulagið hafi þó ekki verið nákvæmlega eins en ekki svo ólíkt. 

„Þetta er stöðug þróun og langt síðan það var. Löngu fyrir mína tíð í stjórnunarstöðu.“

Baldvin Þór mun stýra einingunni

Er gert ráð fyrir uppsögnum eða fækkun starfsfólks samhliða þessum breytingum? 

„Nei.“

Spurður hvort hann verði áfram fréttastjóri svarar Heiðar því til að umrædd eining muni að nafninu til tilheyra fréttastofunni enda einungis um fréttatengda þætti að ræða. Hann segir Baldvin Þór Bergsson, ritstjóri Kastljóss, þó koma til með að stýra einingunni dags daglega. 

„Hann mun halda áfram í Kastljósi en síðan heldur hann svona utan um þessi daglegu verkefni sem felast í því að stýra stórum hópi starfsmanna,“ segir Heiðar og bætir við:

„Þetta heyrir allt undir fréttastofuna og þar af leiðandi mig.“ 

María Sigrún verður ekki í ritstjórn Kveiks næsta vetur 

Fyrr í dag vakti athygli þegar Vísir greindi frá því að krafta Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur fréttamanns væri ekki lengur óskað í fréttaskýringarþættinum Kveik. 

Spurður hvort Heiðar geti staðfest að sú sé raunin svarar hann því til að honum sé óheimilt að ræða starfsmannamál eða almennt um frammistöðu starfsmanna. 

Hann staðfestir þó að á þriðjudaginn var hafi síðasti Kveiks-þáttur vetrarins verið sýndur og á sama tíma hafi hafist vinna við að undirbúa Kveik fyrir næsta vetur. Hluti af því segir Heiðar er að ákveða hverjir verði í ritstjórn Kveiks. 

„Hún er sjálf búin að segja að hún verði ekki í ritstjórn Kveiks og ég get bara staðfest það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert