Eldhústískan sem er á leiðinni út

Ótrúlega fallegt og stílhreint eldhús þar sem svartur og hvítur …
Ótrúlega fallegt og stílhreint eldhús þar sem svartur og hvítur marmari kallast á. Ljósmynd/Fiona Lynch

Við rákumst á afar áhugaverða grein í tímaritinu Forbs þar sem rætt var við fjölda sérfræðinga og þar voru dregnir saman þeir tískustraumar sem hafa verið vinsælir í eldhúshönnun um heim allan en eru á útleið.

Hvíta eldhúsið. Hvít eldhús þykja ekki lengur móðins samkvæmt þessu. Þau minna einna helst á skurðstofu og það eina sem hægt er að gera í þeirri stöðu ef þú átt slíkt eldhús er að mála veggina í lit, skipta um höldur og freista þess að lífga upp á rýmið án þess að þurfa að rífa alla innréttinguna út.

Opin eldhús. Nú fá sjálfsagt flestir verktakar landsins, sem fjöldaframleiða íbúðir, fyrir hjartað enda allar íbúðir sem hannaðar eru með opnum eldhúsum. Samkvæmt sérfræðingunum er þetta þó ekki lengur málið. Gömlu góðu eldhúsin eru að koma aftur og þar hafið þið það.

Svört mött heimilis- og blöndunartæki. Nú fá eflaust margir sjokk enda búnir að fjárfesta í rándýrum fínum heimilis- og blöndunartækjum í möttum svörtum lit  alveg eins og hefur verið hvað mest í tísku.

Efri skápar. Nú fá eflaust margir áfall en við hér á eldhúsvefnum höfum predikað þetta í nokkur ár enda teljum við efri skápa bæði plássfreka og ekki mjög fallega. Þetta á reyndar við í stórum eldhúsum þar sem nóg er af skápaplássi en skiljanlega er erfitt að fórna efri skápunum í litlum eldhúsum.

Gerviefni. Þetta er sorgardagur fyrir þá sem sjá í hillingum að blekkja ættingja með gervimarmaranum úr IKEA. Samkvæmt Forbs er tískan þessi dægrin að vera eins ekta og hægt er og þá skiptir verðmiðinn ekki öllu máli heldur er það þykjustuleikurinn sem er dottinn úr tísku.

Fiskibeinaflísar. Þessi grein fer að verða ansi erfið en hið ástsæla fiskibeinamynstur sem hefur prýtt eldhúsveggi á velmegandi heimilum hefur fengið dauðadóminn og skal því úthýst frá og með áramótum.

Carrera-marmari. Nú ætlum við formlega að hætta að skrifa þessa grein enda rekur hvert áfallið annað. Að sögn Forbes er Carrera-marmarinn orðinn svo ofnotaður að hann er formlega hættur að vera töff. Takk fyrir og bless.

Grein Forbes má lesa HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert