Draumaútieldhúsið orðið að veruleika

Hanna Þóra Helgadóttir er alsæl með nýja útieldhúsið sitt sem …
Hanna Þóra Helgadóttir er alsæl með nýja útieldhúsið sitt sem hún og maðurinn hennar hönnuð sjálf. Ljósmynd/Hanna Þóra Helgadóttir

Draumur Hönnu Þóru Helgadóttur matarbloggara og flugfreyju hjá Icelandair um útieldhús hefur loksins ræst. Hanna Þóra og maðurinn hennar höfðu látið sig dreyma um útieldhús í dágóðan tíma og fyrsta skrefið í átt af draumnum var tekið fyrir liðlega þremur árum. Útieldhúsið er í stöðugri notkun þessa dagana enda veðrið til þess og Hanna Þóra deilir líka með lesendum ljúffengri uppskrift að bökuð hvítmylguosti sem bakaður er úti í pitsaofninum sem þau fluttu sérstaklega inn fyrir útieldhúsið.

„Loksins varð útieldhúsið að veruleika en þetta hefur átt sér langan aðdraganda. Við gengum með nokkrar hugmyndir í maganum lengi sem voru á óskalistanum fyrir draumaeldhús. Við vildum hafa gott borðpláss, geymslupláss, eldofn og góða aðstöðu fyrir grillið. Vaskur var á óskalistanum en það var hugsað sem svona extra plús ef það væri hægt,“ segir Hanna Þóra.

Glæsilegt útieldhúsið þeirra. Einingarnar koma úr Ikea og heita Grillskar. …
Glæsilegt útieldhúsið þeirra. Einingarnar koma úr Ikea og heita Grillskar. Það var hægt að velja úr nokkrum tegundum, bæði minni og stærri ásamt vask einingu sem tikkaði í boxið hjá Hönnu Þóru. Ljósmynd/Hanna Þóra Helgadóttir

Útieldhúsið hannað að okkar þörfum

Aðspurð segir Hanna Þóra að þau hafi hannað eldhúsið með það að leiðarljósi að uppfylla þarfir fjölskyldunnar. „Eldhúsið þarf að henta okkar þörfum og er um leið rými sem má hafa gaman að. Okkar eldhús snýst um samverustundir og góðan mat alla leið. Krakkarnir sjá reyndar einnig fyrir sér að vaskurinn sé snilld til að fylla á vatnsbyssur á góðum degi. Við hönnuðum okkar eldhús sjálf eftir ótal klukkustundir í hugmyndavinnu á Pinterest. Röðuðum síðan einingum fram og til baka til að finna bestu útfærsluna sem mynda henta rýminu.“ 

Í fyrstu ætluðu þau að smíða innréttingarnar sjálf en fundu síðan hillueiningar sem heilluð þau upp úr skónum. „Við skoðuðum að smíða eldhúsið sjálf en á endanum féllum við fyrir einingunum sem uppfylltu þá hönnun, notagildi og hugmyndir sem við höfum og einfaldaði alla vinnu við að koma eldhúsinu upp á styttri tíma en ella.“ Undirbúningurinn og framkvæmdin tók samt sem áður sinn tíma. „Það eru akkúrat 3 ár síðan við tókum ákvörðun um að taka burtu blómabeðið sem var þarna fyrir og langaði að gera eitthvað skemmtilegt sem myndi nýtast okkur betur. Þegar við skoðuðum húsið okkar 2016 þá horfðum við strax á þetta horn og hugsuðum að þarna væri tilvalið að setja upp útieldhús. Framkvæmdirnar hafa þannig langan aðdraganda.“

Svona leit svæðið út áður enn draumurinn um útieldhúsið varð …
Svona leit svæðið út áður enn draumurinn um útieldhúsið varð að veruleika. Ljósmynd/Hanna Þóra Helgadóttir

Byrjuðu á verkinu í Covid

Í Covid faraldrinum voru allir heima um sumarið og þá fórum við að græja pallinn betur og keyptum okkur draumasófann, mottur og fleira. Sama sumar kom ítalski pitsaofninn á pallinn og hann ýtti okkur enn frekar í að gera fallega aðstöðu í kringum hann. Í vor komu loksins einingar sem hentuðu okkur og voru sú lausn sem við höfðum verið að leita að, þá var ekki aftur snúið og allt fór á fullt.“ Einingarnar komu tilbúnar og það þurfti einungis að setja þær saman. „Pitsaofninn okkar heitir ALFA One og kemur frá Ítalíu. Við létum sérpanta hann fyrir okkur hjá Progastro hér heima. Ég hef síðan keypt allskonar skrautmuni sem hentar útieldhúsinu í Bandaríkjunum en ég fer mikið þangað vegna vinnu. Ameríkaninn elskar góðar grillveislur og útisvæði, því er alls konar fallegt og nytsamlegt til þar sem hentar til að hafa úti.“

Borðplássið er afar gott og nýtist vel að sögn Hönnu …
Borðplássið er afar gott og nýtist vel að sögn Hönnu Þóru. Ljósmynd/Hanna Þóra Helgadóttir

Gott borðpláss ómissandi

Hönnu Þóru finnst ákveðnir hlutir vera ómissandi í útieldhúsinu. „Gott nýtanlegt borðpláss sem við notum mikið, sérstaklega á eyjunni sem kemur út úr eldhúsinu er ómissandi að hafa. Mér finnst mikilvægt að hafa stað til að geta undirbúið matinn og til að raða upp mat og/eða drykkjum á fallegan hátt. Smassborgara pannan á grillið hefur komið okkur hvað mest á óvart því hamborgarar heima hafa bara aldrei verið betri. Þetta er sérstök aðferð við að grilla borgara og snýst um að ná betri brúnun á kjötið en útkoman verður svo einstaklega góð. Minnir helst á Shake Shack í Bandaríkjunum. Við erum svo að sjálfsögðu með heimagerða hamborgarasósu sem slær alltaf í gegn. Svo er það pitsaofninn, við erum ótrúlega ánægð með hann og hann er mikið notaður. Pitsaofnar hafa heldur betur slegið í gegn á Íslandi síðustu ár en ég nota okkar eldofn líka í allskonar rétti aðra en bara pitsur. Ég geri til að mynda kryddaðar risarækjur eða bakaðan ost sem er til að mynda í miklu uppáhaldi.“

Verður notað allan ársins hring

Útieldhúsið hefur verið vel nýtt undanfarnar vikur þó júní hafi verið slappur. „Júní fór nú svolítið eins og hann fór en við nýttum tímann í að þrífa pallinn og sinna almennu viðhaldi á honum. Júlí hefur hins vegar verið dásamlegur í alla staði og margar sólarstundir á pallinum með girnilegum mat úr úti eldhúsinu og drykkjum á pallinum. Heit kakó og grillaðir bananar, pitsa kvöld, grillveislur og hamborgarapartí í hverri viku. Yndislegur tími fyrir fjölskylduna.“ Hanna Þóra þykist viss um að útieldhúsið verið notað í vetur. „Alveg klárlega að einhverju leyti. Við grillum allan ársins hring og notum pitsaofninn mikið líka. Þetta er gott borðpláss sem nýtist vel við eldun. Ætli þetta verði ekki vorboðinn ljúfi næsta vor að undirbúa eldhúsið með fallegu blómunum og sítrónum í skál. Ég hlakka a.m.k. strax til.“

Hanna Þóra deilir hér með lesendum gómsætum bökuðum hvítmygluosti sem er upplagt er að bjóða upp á í sumarblíðunni á pallinum. Hægt er að fylgjast með Hönnu Þóru á Instagram reikning hennar @hannathora88.

Girnilegur bakaði hvítmygluosturinn hennar Hönnu Þóru.
Girnilegur bakaði hvítmygluosturinn hennar Hönnu Þóru. Ljósmynd/Hanna Þóra Helgadóttir

Bakaður hvítmygluostur með sykurlausu sírópi, möndluflögum og jarðarberjum

  • 1 stk. hvítmygluostur
  • Möndluflögur eftir smekk
  • Sykurlaust síróp eftir smekk
  • Jarðarber eftir smekk
  • Flögusalt eftir smekk
  • Kex og/eða snittubrauð að eigin vali

Aðferð:

  1. Setjið hvítmygluost í pönnu eða mót sem þolir háan hita.
  2. Bakið þar til osturinn verður mjúkur að innan.
  3. Takið ostinn út og toppið með möndluflögum og sykurlausu sírópi. Skerið niður jarðarber og leggið yfir og saltið léttilega með góðu flögusalti.
  4. Bakið aftur þar til sírópið fer að malla ofan á ostinum.
  5. Njótið með allskonar kexi eða brauði en ég vel ketóvænan kost, bæði ostasnakk og hrökkkex.
Pitsaofninn heitir ALFA One og kemur frá Ítalíu og var …
Pitsaofninn heitir ALFA One og kemur frá Ítalíu og var sérpantaður frá Progastro hér heima. Viðarkassana sá Hanna Þóra í Ikea en þeir eru úr ómeðhöndlaðri furu og því er lítið mál að mála eða bæsa eftir smekk. Ljósmynd/Hanna Þóra Helgadóttir
Rýmið á pallanum er einstaklega vel heppnað þar sem fagurfræðin …
Rýmið á pallanum er einstaklega vel heppnað þar sem fagurfræðin og notagildið fer saman. Hér er eldhús, borðstofa og stofa. Ljósmynd/Hanna Þóra Helgadóttir
Ekki amalegt að hafa barborð líka fyrir fallega og góða …
Ekki amalegt að hafa barborð líka fyrir fallega og góða drykki í sumarblíðunni. Ljósmynd/Hanna Þóra Helgadóttir
Hillurnar og snagarnir fylgja með bakþiljunum sem þau keyptu með …
Hillurnar og snagarnir fylgja með bakþiljunum sem þau keyptu með eldhúsinu. Þægilegt að geta fært til og breytt eftir því hvað er í notkun hverju sinni. Ljósmynd/Hanna Þóra Helgadóttir
Risarækjurnar njóta mikilla vinsælda á heimilinu og eru bakaðar í …
Risarækjurnar njóta mikilla vinsælda á heimilinu og eru bakaðar í pitsaofninum. Ljósmynd/Hanna Þóra Helgadóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka