Vissir þú þetta um íslenskar kartöflur?

Íslenskar rauðar kartöfur eru einstaklega bragðgóðar og hafa gott geymsluþol.
Íslenskar rauðar kartöfur eru einstaklega bragðgóðar og hafa gott geymsluþol. Samsett mynd

Ný uppskera af grænmeti og kartöflum gleður ávallt landsmenn. Landsmenn eru svo heppnir að íslenskar kartöflur eru bæði bragðgóðar og næringarríkar. Á vef Sölufélags garðyrkjumanna kemur fram að neysla kartaflna hefur minnkað frá því hún var mest en samt borðum við að meðaltali 28 kíló á ári sem er töluvert magn.

Næringarríkast að sjóða kartöflurnar með hýðinu

Kartöflur eru með mikilvægustu uppsprettum B- og C-vítamíns í fæðunni. Einnig innihalda kartöflur járn, kalk, fosfór og trefjar. Í þeim er mikill mjölvi sem gerir þær mettandi þó þær séu ekki mjög hitaeiningaríkar. Æskilegt er að sjóða kartöflur með hýðinu, annars tapast mikið af næringarefnum út í suðuvatnið. Séu þær afhýddar fyrir suðu ber að nota eins lítið vatn við suðuna og kostur er og nota síðan vatnið í sósur eða til brauðgerðar til að nýta næringarefnin sem skolast hafa út.

Gullauga algengastar

Aðstæður til kartöfluræktunar eru yfirleitt góðar hér á landi en það geta verið sveiflur í uppskerunni eftir tíðarfari en kartöflur (Solanum tuberosum) hafa verið í ræktun á Íslandi í um 250 ár. Ísland er á norðurmörkum ræktunarsvæðis kartaflna og þess vegna er mikil sveifla í uppskerunni eftir tíðarfari. Algengustu afbrigði í ræktun eru Gullauga, Rauðar íslenskar og Premier. Premier er fljótvaxið afbrigði, Gullauga miðlungi fljótvaxið en Rauðar eru seinar. Eins og fram kemur í pistlinum um kartöflur á vef Sölufélags garðyrkjumanna hérlendis er það frekar regla en undantekning að láta útsæði í forspírun.

Vegna lágs meðalhita sumarsins og stutts vaxtartíma er forspírun nauðsynleg til að Gullauga og Rauðar íslenska nái viðunandi þroska í meðalári. Vaxtartíminn er nógu langur fyrir snemmsprottin afbrigði án forspírunar en kosturinn við forspírun á þeim er að unnt er að taka upp í sumarsölu. Töluvert er um að setja dúk (plast- eða trefjadúk) yfir garðinn eftir niðursetningu og hann látinn vera á þar til grös eru komin vel upp. Fyrir upptöku er mikilvægt að kartöflurnar séu búnar að þroska gott hýði því þannig geymast þær betur. Kjörhitastig í geymslu er um 4°C

Hvernig er best að geyma kartöflur?

Kartöflur á að geyma við 4-6°C og mikinn raka en við slík skilyrði geymast þær í allt að 6 mánuði án þess að dragi úr gæðum sem er mikill kostur. Lofta þarf vel um kartöflurnar þar sem þær eru geymdar, þó má kaldur dragsúgur ekki leika um þær. Kartöflur mega ekki vera í birtu, þá myndast í þeim sólanin og hníðin verða græn. Á heimilum er best að geyma kartöflur í ísskápnum en passa að það lofti vel um þær, svo vert er að hafa það í huga. 

Má frysta kartöflur?

Hægt er að frysta forsoðnar kartöflur í sneiðum eða sem stöppu, en þar sem kartöflur eru fáanlegar allt árið á lágu verði og ferskar kartöflur eru mun bragðbetri en frystar, þá er lítil ástæða til að frysta þær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert