Evu dreymir um nýtt og stærra eldhús

Eva Dögg Sigurgeirsdóttir er mikill fagurkeri og vill hafa fallegt …
Eva Dögg Sigurgeirsdóttir er mikill fagurkeri og vill hafa fallegt kringum sig. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eva Dögg Sigurgeirsdóttir markaðsstjóri hjá Bako Ísberg er mikill fagurkeri og elskar falleg eldhús. Hún leggur mikið upp úr því að hafa fallegt í kringum sig og velja vandaða hluti þegar eldhús og borðhald er annars vegar.

„Mamma og pabbi lögðu alltaf mikla áherslu á eldhúsin heima hjá okkur og það var mikið í þau lagt enda var pabbi meistarakokkur og mikill fagurkeri. Áhugi minn kviknaði þar en því miður er ég enn ekki búin að eignast mitt eigið draumaeldhús en það er klárlega á stefnuskránni,“ segir Eva.

Ryksuguróbotinn ómissandi í eldhúsinu

Hvað finnst þér ómissandi að eiga í eldhúsinu?

„Góðar eldunargræjur og ísskáp númer eitt. Ég hugsa að ég noti Aarke sódastream tækið hvað mest enda drekk ég mikið af sódavatni. Sérstaklega eftir að maður fékk hylkin í áskrift þá verður maður ekki uppiskroppa. Ég verð samt að segja að það allra besta sem ég á í dag í eldhúsinu er ryksuguróbotinn minn sem ryksugar og skúrar. Ég hefði ekki trúað því hvað hann yrði mikill vinur minn. Ég skildi aldrei þetta tal um ryksuguróbota fyrr en ég eignaðist minn. Ég skírði minn Howard og Howard og ég virði hann bara eins og minn eigin þjónn.“ 

Áttu þína uppáhaldsglasalínu?

„Þegar ég og maðurinn minn kynntumst fyrir 17 árum þá söfnuðum við iittala glösum, en svo fannst mér þau vera komin inn á hvert einasta heimili tíu árum síðar og þá langaði mig að skipta þeim út sem ég og gerði enda finnst mér mjög eðlilegt að skipta út postulíni og glösum. Ég gaf stelpunni minni öll iittala glösin okkar og skipti yfir í Zwiesel. Ég sá Zwiesel fyrst í Williams & Sonoma í Ameríku og svo var ég svo heppin að fyrirtækið sem ég vinn fyrir var að selja þetta merki þegar ég hóf þar störf og þá voru nú hæg heimatökin. Að vísu framleiðir Zwiesel fyrir öll helstu merkin þannig að eflaust hef ég átt línu frá þeim bæði iittala og frá Erik Bagger.“

Zwiesel glösin hennar Evu er mjög falleg og stílhrein.
Zwiesel glösin hennar Evu er mjög falleg og stílhrein. Ljósmynd/Eva

Hvað finnst þér vera heitasta vetrartrendið í eldhúsið núna?

„Ég elska þessi nýju eldhús, margar vinkonur mínar hafa verið að taka sín í gegn og ég fíla hlýleikann sem er aftur kominn ekki bara þetta gráa hráa. Ég vil hlýleika og þessa mildu liti og mér finnst flott að blanda saman og hafa líka smá við, þó ekki nema bara viðarbretti sem sjást. Mér finnst líka flottar salt og piparkvarnir vera orðnar ofur vinsælar á ný. Ég dæmi oft veitingastaði út frá því hvaða merki af piparkvörn og postulíni hann er með.“

Evu finnst flottar salt og piparkvarnir vera orðnar ofur vinsælar …
Evu finnst flottar salt og piparkvarnir vera orðnar ofur vinsælar á ný og skartar sjálf slíkum í eldhúsinu. Ljósmynd/Eva

Heitir litir með marmara

Hvaða litur finnst þér vera heitastur í vetur?

„Allir þessir heitu litir með marmara sem er svo mikið núna ég elska þá. Brúnir tónar og jarðlitir það er eitthvað fyrir mig og líka dökkir og ríkir litir með í bland.

Mér finnst gaman að sjá litagleðina í postulíni, sem er mikil, þessir dempuð litir og jarðlitir höfða líka til mín. Maður sér líka að lituð glös eru aftur að komast í tísku sem mér finnst skemmtilegt ég elska reyklituð glös og lituð glös, fer svona eftir skapi hvaða glös ég ber á borð.“ 

Uppáhaldsmatarstellið þitt?

„Ég elska fallegt leirtau og þegar ég og maðurinn minn byrjuðum að búa fyrir 17 árum þá fórum við að safna Royal Copenhagen Flute stellinu, þá vann maðurinn minn mikið í Kaupmannahöfn og hæg heimatökin að grípa með disk og disk. Í dag finnst mér það stell enn fallegt en verðið á því er komið upp úr öllu valdi að mínu mati en gaman að eiga það með. Ég á einnig fallegt stell frá Steelite þar sem hægt er að blanda saman ólíkum litum, það sem ég fíla best við stellið að það kvarnast ekki upp úr því. Síðan má setja stellið inn í ofn sem mér finnst mikill plús. 

Nýjasta trendið hjá mér er goðsögnin Villeroy & Boch en ætla að fá mér klassískt stell frá þeim fyrir jólin með gullrönd það er smá nostalgía í því, en ég auðvitað varð að láta fyrirtækið flytja það inn fyrir mig svo ég gæti keytp það. Ég sá það fyrst á veitingastaðnum Hjá Jóni á nýja Parliament hótelinu og kolféll fyrir því. Mér finnst gaman að breyta til og finnst lítið mál að skipta út stelli, ég var búin að vera með sama stellið í mörg ár áður en ég kynntist manninum mínum, ég hugsa að mörgum finnist matarstell vera svona eilífðar samband en ég er nú löngu komin yfir þá hugsun.“

Draumamatarstellið hennar Evu er stílhreint og fágað.
Draumamatarstellið hennar Evu er stílhreint og fágað. Ljósmynd/Eva

Uppáhaldshnífasettið?

„Ég er mikill kokkur og mér finnst mjög mikilvægt að vera með góða hnífa. Ég byrjaði að kaupa japanska hnífa í vinnuferðum mínum í London hér á árum áður, en Selfridges er með geggjað úrval, en svo fundum við alveg geggjaðan framleiðanda á sýningu í Þýskalandi fyrir nokkrum árum en hann heitir Tamahagane. Ég kolféll fyrir þeim hnífum, en það eru hnífar sem maður getur safnað. Þar er komin tening sem er komin til að vera því aðra eins hnífa hef ég ekki prófa. Hnífar eru ekki eilífir þannig að fólk þarf að huga að því. Ég elska japanska hnífa og eftir að ég kynntist Tamahagane þá var bara ekki aftur snúið.“

Plast- eða viðarbretti?

„Ég er fyrir plastbretti þegar ég er að skera niður hráefni í eldhúsinu, finnst einhvern veginn þau vera hreinlegri. Ég nota samt mikið af viðarbrettum en þá til að bera fram mat eða til að skreyta í eldhúsinu.“

Ertu með kaffivél í eldhúsinu?

„Já, ég er með Nexpresso kaffivél og að vísu líka venjulega fyrir uppáhelt þegar maður heldur veislur. En mér finnst Nespresso skemmtilegt konsept og síðan er hægt að fá margar bragðtegundir. Ég ætlaði að fá mér vél sem malar en ég er enn föst í Nespresso. Góð kaffikanna er nauðsynleg í eldhúsið og hef ég haldið tryggð við þetta fyrirtæki frá því það var stofnað en þá flutti maður heilu ferðatöskurnar heim af kaffi frá þeim en í dag eru hæg heimatökin sem betur fer.“ 

Uppáhaldsbollinn frá eiginmanninum

Áttu þér þinn uppáhaldskaffibolla?

„Já, ég á einn sem er í miklu uppáhaldi en maðurinn minn gaf mér hann þegar við vorum í Kaupmannahöfn þegar við vorum að kynnast og það stendur á honum „Queen of Fucking Everything“. Fátt betra en að taka morgunbollann og lesa þessi skilaboð á hverjum degi. Ég er nýkomin með æði fyrir glærum bollum líka því ég fékk kaffi í svo fallegum bolla á Spáni um daginn sem var borinn fram á töff undirskál úr postulíni, fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim var að finna svona bolla fyrir fyrirtækið sem ég vinn fyrir og flytja þá inn svo ég gæti keypt mér þannig.

Eiginmaður Evu gaf henni þennan bolla þegar þau voru að …
Eiginmaður Evu gaf henni þennan bolla þegar þau voru að kynnast í Kaupmannahöfn í forðum. Ljósmynd/Eva
Eva er mjög hrifin af glærum kaffibollum.
Eva er mjög hrifin af glærum kaffibollum. Ljósmynd/Eva

Breytir þú eldhúsinu eftir árstíðum, hvað varðar liti og annað slíkt?

„Nei, en ég skreyti það auðvitað um jólin og páskana, nú svo fá graskerin að njóta sín í gluggunum yfir Hrekkjavökunni.“ 

Uppáhaldsstaðurinn í eldhúsinu? 

„Ég verð að segja við eldavélina, ég elska að töfra fram dýrindis mat og legg mikið upp úr því. Mér finnst lífið of stutt í að elda eitthvað hefðbundið og bragðlaust.“

Dreymir risa ameríska gaseldavél

Áttu þér draumaeldavél? Viltu gas eða spam?

„Já, mig dreymir um Wolf eldavél, svona risa ameríska gasvél, þessi með rauðu tökkunum sem allar stjörnurnar í Hollywood eru með. Wolf tilheyrir Sub-Zero fjölskyldunni en það eru ísskápar sem eru að mínu mati þeir flottustu í heimi, langar líka í einn slíkan hann er klárlega á óskalistanum líka.“

Ertu með kerti í eldhúsinu?

„Já, ég er oft með kerti í eldhúsinu. Ég elska góð ilmkerti og þá eru kertin frá Glyk og Tuli í uppáhaldi. Ilmkerti mega ekki vera of krefjandi og olíurnar í þeim þurfa að vera alvöru, ég þoli illa ilmkerti sem eru óvönduð og seld í tugatali, maður verður að vanda vel hvaða kerti maður brennir því þetta hefur áhrif á umhverfið og bara lífsgæðin. Mér finnst geggjað að vera með falleg kerti í eldhúsinu, sérstaklega á þessum árstíma.“

Ilmkertin fá að njóta sín í eldhúsinu hjá Evu.
Ilmkertin fá að njóta sín í eldhúsinu hjá Evu. Ljósmynd/Eva

Finnst þér skipta málið að leggja fallega á borð?

„Já, mér finnst það svo mikilvægt, það verður einhvern veginn allt betra þegar maður er með fallegt stell og fallegt umhverfi að mínu mati. Ég elska kertaljós og nýafskorin blóm, þau gleðja. Maður þyrfti helst að setja blómakaup á listann með klippingu, líkamsrækt og öllu því.“

Hvað dreymir þig um að eignast í eldhúsið?

„Væri alveg til í að vera með þjónn í eldhúsinu sem myndi laga til eftir mig því eldhúsið er lítið og ég á það til að subba sem tilheyrir vissulega góðum kokkum að mínu mati, en án gríns þá dreymir mig um nýtt eldhús sem ég fæ að hanna frá grunni. Ég bý í yndislegu húsi í Ártúnsholti en mig langar í stærra eldhús því ég elska að elda góðan mat og fá fólk í heimsókn. Helst vildi ég vera með opið hús á kvöldin þar sem ættingjar mínir ættu alltaf pláss við matarborðið hjá mér, þar sem hjarta heimilisins slær, í eldhúsinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka