Hefur þú prófað kjúkling í brúnni sósu með kartöflumús?

Girnilegur kjúklingaréttur í brúnni sósu úr smiðju Berglindar Hreiðars borinn …
Girnilegur kjúklingaréttur í brúnni sósu úr smiðju Berglindar Hreiðars borinn fram með kartöflumús. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Hér er á ferðinni ekta heimilislegur vetrarmatur sem á vel við á köldum vetrardegi.  Það er líka ágætt að velja einfalda matargerð fyrir hátíðarhöldin og spara tilstandið. Kartöflumús og brún sósa er eitthvað sem flestir elska og þessi réttur er dásamlega ljúffengur og kemur úr smiðju Berglind Hreiðars köku- og matarbloggara hjá Gotterí og gersemar. 

Kjúklingur í brúnni sósu með kartöflumús

Fyrir 4

  • 1 poki Rose Poultry kjúklingalundir (um 700 g)
  • ½ laukur
  • 350 g sveppir (blandaðir)
  • 3 hvítlauksrif
  • 2 msk. ferskt timian (saxað)
  • 300 ml vatn
  • 2 msk. Oscar fljótandi nautakraftur
  • 200 ml rjómi
  • Um 4 msk. maizenamjöl
  • Ólífuolía til steikingar
  • Salt, pipar og hvítlauksduft eftir smekk 

Aðferð:

  1. Byrjið á því að steikja lundirnar upp úr ólífuolíu og krydda eftir smekk.
  2. Brúnið vel á öllum hliðum og færið yfir á disk.
  3. Skerið lauk og sveppi niður, steikið á sömu pönnu (ekki þrífa hana á milli), bætið ólífuolíu við eftir smekk og kryddið vel, eldið við meðalháan hita þar til sveppir og laukur mýkist.
  4. Rífið þá hvítlauksrifin og setjið þau ásamt timían saman við og steikið stutta stund til viðbótar.
  5. Næst má hella vatni, krafti og rjóma á pönnuna og ná upp suðunni að nýju, þykkja eftir smekk með maizenamjöli og lækka hitann síðan alveg niður og leyfa að malla í um 10 mínútur, kryddið meira ef þurfa þykir.
  6. Berið fram með kartöflumús (sjá uppskrift hér fyrir neðan).

Heimalöguð kartöflumús

  • 1 kg kartöflur
  • 40 g smjör
  • 2 msk. sykur (má sleppa)
  • 1 tsk. salt
  • Um 150 ml nýmjólk 

Aðferð:

  1. Sjóðið og flysjið kartöflurnar (eða öfugt, það má líka).
  2. Setjið þær í hrærivélarskálina ásamt smjöri, sykri og salti og blandið saman á lægstu stillingu.
  3. Bætið mjólkinni saman við í nokkrum skömmtum og skafið niður á milli.
  4. Setjið í fallega skál og berið fram með kjúklingnum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka