Heilsusamlegur vikumatseðill á nýju ári í boði Ásthildar

Ásthildur Huber á heiðurinn af fyrsta vikumatseðilinum á nýju ári …
Ásthildur Huber á heiðurinn af fyrsta vikumatseðilinum á nýju ári sem er um garð gengið, árið 2024. Seðilinn er hinn heilsusamlegasti, góður fyrir líkama og sál. Ljósmynd/Ásthildur

Ásthildur Huber ljósmóðir á heiðurinn af fyrsta vikumatseðlinum á nýju ári sem er afar viðeigandi þar sem hún leggur mikla áherslu á hollt og gott mataræði fyrir líkama og sál. Ásthildur á líka heiðurinn af öllum uppskriftunum sem eru hver annarri girnilegri til að njóta í upphafi ársins.

Ásthildur lærði næringarráðgjöf í Þýskalandi, fyrst til að hjálpa konum með rétt mataræði á meðgöngu sem þróaðist síðan meira út í mataræði á breytingaskeiðinu. Vikumatseðillinn þessa viku er því  hollur og góður fyrir alla fjölskylduna en sérstaklega mikilvægur fyrir konur sem eru að komast á eða eru á besta aldri eins og Ásthildur vill frekar kalla breytingaskeiðið. Í lok febrúar verður Ásthildur ásamt Steinunni Zophiansdóttur ljósmóður og breytingaskeiðsráðgjafa, Lindu Baldvinsdóttur markþjálfa og dr.Jónu Ingibjörgu Jónsdóttir kynfræðing með sérhannað helgarnámskeið fyrir konur sem eru að koma á, eða eru á besta aldri og vilja fræðast um hvernig þær tekið á móti breytingunum sem að lífið oft skellir oft á konur á þessum aldri.

Uppskriftir sem hafa jákvæð áhrif á líkamann

„Með réttu mataræði getum við minnkað fylgikvilla breytingaskeiðsins, komið í veg fyrir þyngdaraukningu, viðhaldið heilbrigðri húð og spornað fyrir beinþynningu og vöðvarýrnun. Eftir því sem við eldumst þarf líkaminn færri hitaeiningar en á sama tíma meira prótín til að viðhalda vöðvamassa um sem er eitt það mikilvægasta til þess að viðhalda hreysti og hreyfigetu. Það að halda þarmaflórunni í góðu jafnvægi getur haft gífurlega áhrif á geðheilsu því að seratonin framleiðslan fer að mestu fram í þörmunum en ekki í heilanum eins og áður var haldið. Plöntuestrógegn geta spornað við hitakófi og fleiri fylgikvillum breytingaskeiðsins og C-vítamín er annar mikilvægur þáttur til þess að auka og viðhalda prógestaron framleiðslu líkamans. Omega 3 fitusýrur eru sérstaklega mikilvægar fyrir heilastarfsemina ásamt B-vítamíni, við þurfum að vera viss um að fá næginlegt magn af D- og K-vítamínum til þess að viðhalda beinheilsu. Maca getur líka hjálpað við hitakóf og jafnvel aukið kynhvötina sem oft dettur niður á þessum árum. Og listinn er endalaus þannig að er margt sem við getum gert þegar að kemur mataræðinu en stundum finnst manni þetta verða of mikið og flókið. Vikumatseðill að þessu sinni bíður upp á margar mismunandi uppskriftir sem allar á einn eða annan hátt innihalda næringu sem hafa jákvæð áhrif á líkamann þá sérstaklega konur á breytingaskeiðinu,“ segir Ásthildur.

Mánudagur - Kínóagrautur

„Ef að það er einhver matur sem ég hugsa til baka í æsku þá var það grjónagrauturinn góði hjá ömmu minni. En eftir því sem ég varð eldri hef ég fundið fyrir óþægindum við það að neyta mjólkur og ekkert liðið sérstaklega vel eftir að ég hef borðað hinn týpíska grjónagraut. Mig langaði samt að upplifa þessa hlýju tilfinningu við að borða grautinn og þannig varð þessi uppskrift til.“ 

„Þessi grautur er ekki bara bragðgóður heldur líka einstaklega hollur og próteinríkur, auk þess sem að goji berin og kanillinn halda blóðsykrinum í jafnvægi og koma þannig í veg fyrir blóðsykurfall og þreytu. Möluðu hörfræin innhalda m.a. plöntuestrógen sem sýnt hafa fram á að geta unnið gegn hitakófi. Bæði hörfræin og valhneturnar innihalda mikið af ómega 3 fitusýrum sem eru sérstaklega góðar til að bæta inn hollri fitu sem að er mikilvæg fyrir alla starfsemi líkamans, heilastarfsemi og fyrir heilbrigða húð. Kínóa er miklu uppáhaldi hjá mér og ég reyni að skipta út hrísgrjónum fyrir kínóa hvenær sem ég get sérstaklega til þess að borða meiri prótín og trefjar sem að koma í veg fyrir að blóðsykurinn rjúki upp.“

Kínóagrautur Ásthildar.
Kínóagrautur Ásthildar. Ljósmynd/Ásthildur Huber

Kínóagrautur

  • 1 dl kínóa
  • 2 dl haframjólk eða aðra mjólk eins og kókos-, möndlu- eða kúamjólk
  • 1-2 msk. goji ber
  • 1 epli
  • 1 msk. möluð hörfræ
  • 1-2 tsk. kanil
  • 1/2 tsk. sjávarsalt
  • Handfylli af valhnetum

Aðferð:

  1. Hitið mjólkina þar til að suðan kemur upp.
  2. Lækkið hitann og bætið kínóa við.
  3. Skerið eplið í smábita og bætið í pottinn ásamt goji berjunum og kanil.
  4. Sjóðið við lágan hita í um það bil 15 mínútur.
  5. Það má leika með þessa uppskrift að vild.
  6. Skipta út goji berjunum fyrir rúsínur eða trönuber.
  7. Skipta út eplinu fyrir peru, mangó, ferskjur eða aðra ávexti.
  8. Skipta út valhnetunum fyrir hvaða hnetur sem er, eða möndlur.
  9. Ef að þú vilt grautinn aðeins sætari getur þú bætt döðlu (skorin í smátt) eða bætt við örlitlu hunangi.
  10. Það er auðvelt að stækka uppskriftina og geyma í ísskáp, setja í krukku bæta við ferskum berjum og taka með í vinnuna næsta dag grauturinn er líka góður kaldur.
  11. Ef að þér þykir sterkt gott þá er gott að raspa ferskt engifer út í grautinn og sjóða með.
  12. Engar reglur þú lætur bara hugmyndaflugið og bragðlaukana ráða.

Þriðjudagur – Grænmetis- og hnetupottréttur

„Þessi réttur er stútfullur af grænmeti og ferskum jurtum sem að er mikilvægt fyrir góða þarmaflóru.“

Grænmetis- og hnetupottréttur.
Grænmetis- og hnetupottréttur. Ljósmynd/Ásthildur Huber

Grænmetis- og hnetupottréttur

  • 1/2 blómkálshöfuð
  • 1 sæt kartafla
  • 1 rauð paprika
  • 1 bolli grænar baunir
  • 1 rauðlaukur
  • 4-5 hvítlauksgeirar
  • Fersk engiferrót
  • Fersk túmerikrót
  • 200 g basmati hrísgrjón
  • 1/2 L beinsoð
  • 4-5 msk. hnetusmjör
  • 500g tómatmauk
  • 400 ml kókosmjólk
  • 1-2 msk. kókosolía
  • 1-2 msk. hakkaðar ristaðar hnetur
  • paprikuduft, karrí, kanill, negull, kúmen, túmerik, svartur pipar eða uppáhalds karrí kryddblandan þín
  • Ferskur kóríander og límóna.

Aðferð:

  1. Hitið ofninn 180°C hita
  2. Smyrjið stóra pönnu (sem má fara í ofn) eða stórt eldfast mót með kókosolíu
  3. Skerið allt grænmetið smátt, setjið í mótið ásamt, hvítlauknum, laukinum, baununum og hrísgrjónunum.
  4. Setjið beinsoðið í pott ásamt tómatmaukinu, kókosmjólkinni, hnetusmjörinu og kryddinu, raspið/rífið engifer og túmerikrótina, blandið/hrærið allt vel saman þar til að suðan kemur upp.
  5. Hellið sósunni yfir grænmetis og hrísgrjónablönduna, verið viss um að sósan sé yfir hrísgrjónin og sætu kartöflurnar.
  6. Setjið álpappír yfir og bakið í miðjum ofni í 45 mínútur.
  7. Takið álpappírinn af hæpið hitan í 200° og bakið áfram í 15 mínútur.
  8. Takið úr ofninum og berið fram með ferskum kóríander og ferskum límettum og stráið hnetunum yfir.

Miðvikudagur - Fræbrauð með gulrótum

„Brauð er eitt af mínu uppáhaldi, en því miður er það bara ekki nógu hollt og veldur oft blóðsykurssveiflum, þess uppskrift varð til þegar ég var að reyna að baka hollar múffur sem fór ekki eins og ég hafði planað en nú er þetta brauð orðið eitt af því sem við verðum alltaf að eiga heima, ég baka þetta einu sinni í viku, sker í sneiðar og set í frystinn tek það svo út og hendi í ristavélina og þá er það alltaf eins og nýbakað, sérstaklega gott með hummus og tómötum eða avókadó og feta osti. Þetta brauð er prótín og trefjaríkt, inniheldur mikið magn af plöntuestógeni og heldur blóðsykrinum alveg í jafnvægi og sérstaklega gott fyrir þarmaflóruna.“

Fræbrauð með gulrótum.
Fræbrauð með gulrótum. Ljósmynd/Ásthildur Huber

Fræbrauð með gulrótum

  • 200 g kotasæla
  • 500 g fræblanda (graskers, sólblóma, hör, chia og sesam)
  • 4 egg
  • 2 gulrætur
  • Handfylli af þurrkuðum ávöxtum eða berjum eins og apríkósum, mangó, trönuberjum eða rúsínum
  • (má sleppa eða nota frekar kryddjurtir í staðinn ef vill)
  • ½  tsk. salt

Aðferð:

  1. Hitið ofninn 200°C hita.
  2. Rífið gulræturnar í þunnar ræmur.
  3. Blandið öllu hráefninu saman í skál.
  4. Fletjið út á bökunarpappír (gott að setja bökunarpappír yfir deigið til að fletja út).
  5. Bakist í miðjum ofni í 20 -30 mínútur.
  6. Takið úr ofninum og skerið í bita/sneiða.
  7. Geymist í ísskáp í loftþéttu gleríláti í 3 daga og lengur í frysti, sérstaklega gott að rista þegar að tekið er úr ísskáp eða frysti.
  8. Það er líka gaman að skipta út gulrótunum fyrir rauðrófu eða kúrbít.

Fimmtudagur – Lax með spínati

„Ég veit fátt betra en að borða ljúffenga lax með góðu grænmeti eins og spínati. Þessi uppskrift er sveigjanleg og þú getur haft það eins og þú vilt.“

Lax með spínati og fleira góðgæti.
Lax með spínati og fleira góðgæti. Ljósmynd/Ásthildur Huber

Lax með spínati

  • Ferskt spínat
  • Ferskt eða frosið mangó
  • Rauðlaukur
  • Avókadó
  • Ristuð sólblómafræ
  • Lax fillet
  • Magn fer eftir fyrir hversu marga er verið að elda og líka eftir bragðlaukunum, hvort þú vilt mikið eða lítið spínat, hvort að þú finnir stórt eða lítið mangó. 

Aðferð:

  1. Kryddið laxinn að vild.
  2. Grillið laxinn eða bakið í ofni við 180°C hita.
  3. Skerið laukinn, avókadóið og mangóið í bita.
  4. Ristið sólblómafræin í pönnu.
  5. Setjið allt í skálar.
  6. Leggið laxsneiðarnar á salatið, stráið sólblómafræjunum og dreypið sósunni yfir (uppskrift að sósunni hér fyrir neðan).

Sósa með laxinum

  • 1 mangó
  • ½ rauðlaukur
  • 20 ml eplaedik
  • 40 ml ólífuolía
  • 1 mjúk daðla
  • Chiliflögur
  • Kóríander

Aðferð:

  1. Setjið allt saman í matvinnsluvél og blandið saman á “pulse” nokkrum sinnum.

 Föstudagur - Græn bústskál

„Helgarnar eru tíminn þar sem ég oft slaka aðeins á með mataræðið og leyfi mér eitthvað sem er ekki endilega mjög hollt, þess vegna finnst mér gott að fara inn í helgina vitandi að ég hafi verið að borða næringarríkan mat alla vikuna og þá fæ ég mér oft bústskál svona til að sigla inn í helgina. ég gæti í raun og veru borðað bústskálar í allar máltíðir og þar sem ég bý á Spáni er ég ekki mikið að elda mat á sumrin þegar það er of heitt og þá er ég oft að borða bústskálar daglega, ég passa mig á að hafa þær ekki of sætar með því að setja nóg grænmeti með í bústið og líka vera viss um að bæta fræjum og eða hnetum við til þess að fá prótín og holla fitu með.“

Græn nærandi bústskál.
Græn nærandi bústskál. Ljósmynd/Ásthildur Huber

Græn bústskál

  • 2-3 appelsínur eða mandarínur
  • 1 sítróna
  • Agúrka
  • 1 msk. maca duft
  • 1 msk. chiafræ
  • 1 msk. hörfræ
  • Handfylli spínat
  • Fersk minta
  • Frosinn ananas eða mangó bitar
  • Magnið af öllu fer eftir smekk, prófið ykkur áfram hvað ykkur finnst best
  • Notið ávexti, ber, hnetur, fræ, allt sem að ykkur dettur í hug til að skreyta skálarnar.

Aðferð:

  1. Setjið fyrst appelsínurnar, sítrónuna og gúrkuna í blandarann og blandið vel þar til orðið að þykkum vökva, bætið síðan spínati, mintu og frosnu ávöxtunum og blandið aftur vel.
  2. Hellið síðan í skálar og látið sköpunargleðina taka völdin.

Laugardagur - Kínóa með salatsósu

„Ég er mjög hrifin af kínóa og það er gjarnan laugardagsmaturinn minn. Kínóa er mjög prótínríkt og inniheldur  amínósýrur sem að líkaminn getur ekki framleitt sjálfur en þarf nauðsynlega á að halda, og er þess vegna einn af besti plöntupróteinuppspretta sem að við getum borðað.

Kínóa með salatsósu.
Kínóa með salatsósu. Ljósmynd/Ásthildur Huber

Kínóa

  • 1dl kínóa
  • 1dl svartar baunir
  • 1 mangó
  • 1 avókadó
  • 200 g kokkteiltómatar
  • 1 paprika
  • 1 rauðlaukur
  • 1 búnt kóríander
  • 100 g spínat
  • Jalapenó (má sleppa)

Aðferð:

  1. Leggið baunirnar í bleyti, best yfir nótt. Skiptið um vatn og sjóðið á lágum hita í minnst tvo tíma en má lengur, gott er að bæta salti og ýmsum kryddjurtum eins og kúmen, chili og líka lárviðarlaufum.
  2. Sjóðið 2 dl þangað til að suða kemur upp og bætið svo 1dl kínóa og lækkið hitan, sjóðið í 12 mínútur og setjið til hliðar.
  3. Skerið allt grænmetið og mangóið í litla bita og saxið kóríanderinn í smátt.
  4. Blandið öllu saman í skál og hellið sósunni yfir og njótið.
  5. Þetta salat smakkast vel eitt og sér og má bera fram heitt eða kalt. Þetta er einnig mjög gott sem fylling í  bakaðar vefjur, og einnig gott sem meðlæti  með grilluðum kjúkling, lax eða rækjum eða öðrum fisk.

Salatsósa

  • Safi úr einni límónu
  • 2 msk. eplaedik
  • Ólífuolía
  • 1 Medjola daðla

Aðferð:

  1. Setjið allt saman í matarvinnsluvél og blandið vel.

Sunnudagur - Fyllt eggjakaka

„Einn af pirrandi þáttum breytingaskeiðsins er heilaþoka og minnisskortur. Kólín er nauðsynlegt næringarefni sem gegnir mikilvægu hlutverki við að viðhalda heilbrigðri starfsemi heilans. Kólín er er hvorki vítamín né steinefni, en samt mikilvægt næringarefni fyrir líkaman og virkar svipað amínósýrum og líka B vítamínum. Það virkar sem undanfari asetýlkólíns, taugaboðefnis sem skiptir sköpum fyrir minni og einbeitingu. Ég elska egg ekki bara af því að þau eru mjög prótínrík heldur líka af því egg eru ein besta leiðin til að fá nægilegt kólín án þess að hafa mikið fyrir því. En kólín finnst m.a. líka í nautakjöti, lifrur, lax og kjúklingalærum og í grænmeti (þó mun minna magn) eins og brokkolí og baunum. Stundum þegar ég hef ekki mikinn tíma hendi ég bara í eggjahræru í stað eggjaköku, í staðinn fyrir að snúa kökunni við hrærið allt saman á pönnunni og borðið úr lítilli skál.

Eggjakaka að bestu gerð.
Eggjakaka að bestu gerð. Ljósmynd/Ásthildur Huber

Fyllt eggjakaka

  • 1 stórt egg
  • smátt skorinn sveppur
  • handfylli ferskt spínat
  • sólþurrkaðir tómatar
  • Feta ostur mulinn
  • Avókadó
  • Ólífuolía
  • Salt, pipar, chiliflögur eftir smekk
  • Ferskar jurtir eins og t.d kóríander eða steinselja eftir smekk.

Aðferð:

  1. Skerið allt grænmetið mjög smátt og steikið á lítilli pönnu með ólífuolíu.
  2. Hrærið saman egg og fetaost og hellið yfir grænmetið við miðlungshita.
  3. Þegar að eggjakaka er orðin föst þá snúið við og steikið á hinni hliðinni.
  4. Saltið og kryddið að vild.
  5. Berið fram með avókadó, annað hvort smátt skorið eða stappið með gafli og bætið smá salti, chiliflögum, ferskum kryddjurtum og kreistið smá sítrónu yfir.
  6. Berið fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert