Lyfti grettistaki eftir áfall

Ingibjörg Þorvaldsdóttir hefur staðið í ströngu undafarna vikur og mánuði …
Ingibjörg Þorvaldsdóttir hefur staðið í ströngu undafarna vikur og mánuði eftir að hafa misst fyrirtækið, Pure deli, sitt í bruna. Hún hefur nú opnað aftur á nýjum stað. Ljósmynd/Karl Petersson

Ingibjörg Þorvaldsdóttir athafnakona með meiru og fagurkeri hefur staðið í stórræðum undanfarna vikur og mánuði eftir að hafa orðið fyrir miklu áfalli þegar veitingastaðurinn hennar Pure deli varð fyrir altjóni eftir bruna.

Ingibjörg gat ekki hugsað sér að gefast upp og hélt ótrauð áfram að finna lausn við húsnæðisvandanum og á aðeins liðlega tveimur mánuðum eftir altjónið var Ingibjörg og teymið hennar búið að opna veitingastaðinn á nýjum stað. Með Grettistaki tókst Ingibjörgu að opna Pure deli að nýju en það kostaði líka blóð, svita og tár.

Alla tíð með kaupmannsgenið

Ingibjörg hefur ávallt látið verkin tala og farið alla í leið í öllu því sem hún hefur tekið sér fyrir hendur.

Ég er borgarstelpa og ólst upp í Álftamýrinni. Ég hef alla tíð verið með kaupmannsgenið, var alltaf að setja upp búðir og tombólur sem krakki og þegar Kringlan opnaði þá byrjaði ég fljótlega að vinna þar í versluninni 17, aðeins 13 ára gömul. Þar starfaði ég í tíu ár með skóla og í fullri vinnu síðar. Mér fannst ávallt gaman í vinnunni, hún átti hug minn allan og ég hélt svo áfram með eigin verslanir og lengst af átti ég og rak Oasis sem var mjög vinsæl hér á landi. Framsetning, útlit og heilbrigður lífsstíll er mitt áhugamál og ég elska salöt og ferska safa og það er uppistaðan í mínu mataræði og hefur verið. Þegar ég fór fjörutíu ára gömul úr tískuheiminum yfir í matinn gat ég nýtt svo margt úr minni smiðju því öll viljum fá fallega framsettan mat og fá góða heildarupplifun þegar við fáum okkur að borða,“ segir Ingibjörg með bros á vör. 

En Ingibjörg er líka þekkingar- og lærdómsfús. Hún hefur mjög gaman af rekstri í dag og ekki langt síðan hún fór að læra meira á því sviði. Ég skellti mér í MBA nám í HR og útskrifaðist þar árið 2023 og er á leiðinni í meira viðskiptanám. Mig langar að halda áfram að læra alltaf eitthvað nýtt því það nýtist mér í vinnunni og á öllum sviðum. Síðan á ég þrjá yndislega drengi, kærasta og hund og reyni að nota sem mestan tíma með þeim ásamt allri fjölskyldunni minni og vinum.

Vantaði stað á Vatnsendasvæðinu

Þegar Ingibjörg er spurð hver tilurð staðarins sé segir hún hugmyndina hafi komið eftir að hún flutti upp í efri byggðir. En Ingibjörg og fjölskyldan hennar r á Vatnsenda í Kópavogi en hún flutti þangað fyrst árið 2005. Ég hafði lengi hugsað hversu mikið það vantaði stað hér á svæðið, á Vatnsendanum, sem væri fallegur með ferskan góðan mat og hægt væri að setjast inn í kaffi, líka til að hitta vinkonurnar og/eða eiga góða stund. Ég var orðin þreytt á ferðalögunum sem fylgdu vinnunni minni og vildi vera nálægt strákunum mínum. Ég sló því til þegar húsnæðið í Urðarhvarfi 4 bauðst,“ segir Ingibjörg.

Hvaðan skyldi nafnið á staðnum koma?

Nafnið Pure hafði ég verið með í kollinum mjög lengi. Ég sá fyrir mér ferskan, fallegan og bragðgóðan mat, svo smakkaði ég kökur frá nokkuð mörgum bökurum til að vera með góðar kökur með kaffinu. Ég hef þá trú að þegar maður fær sér köku þá á hún að vera æðisleg, hollustu kökur hafa yfirleitt ekki höfðað til mín. Deli nafnið fannst mér gott heiti með til að sameina allt sem við vorum með í boði. Þann 21. október árið 2017 opnaði staðurinn og vinsældirnar létu ekki á sér standa og var stöðug aukning og blómlegur rekstur alveg til 11. september á síðastliðnu ári, 2023, þegar allt breyttist.

Mikið áfall þegar altjón var á staðnum

Örlagadagurinn mikli var mánudagurinn 11. september klukkan 18.45. „Þá fæ ég símtal frá starfsmanni í miklu uppnámi sem segir að það sé eldur. Fyrsta hugsun mín var  að pitsaofninn eða eitthvað frá okkur hafi orsakað eldinn og ég fæ mikið áfall og bruna upp eftir, mest hrædd um að einhver hafi verið í hættu. Það var sem betur fer ekki og allir komust út en mikið af fólki var inni á staðnum,“ segir Ingibjörg og bætir við að þungu fargi af sér hafi verið létt að vita að öllum var óhætt.

Fljótlega kom í ljós að eldurinn kom upp á lager hjá nágranna sem var með útivistafatnað, en slíkur varningur er mjög mikill eldsmatur. Svo fer að veggurinn á milli okkar og lagersins gefur sig og reykurinn er fljótur að fylla allt rýmið. Altjón varð á okkar stað og öllu þar inni. Þetta tók innan við tvær mínútur og ég, starfsfólkið og fjölskyldan mín stóðum svo öll fyrir utan í nokkra klukkutíma og horfðum á svartan þykkan reykinn blása út og um allt, mjög sérstök upplifun og erfitt að sjá þetta eftir að hafa byggt upp í sex ár þennan fallega stað sem mörgum þótti nú ekki vel staðsettur í byrjun. En mikilvægast af öllu er að enginn slasaðist og það mátti ekki miklu muna, fólkið hljóp hreinlega út þegar þessi stóri veggur sprakk og tveir starfsmenn frá mér rétt komust út og var reykurinn að verða það þéttur að þau sáu varla neitt á leiðinni út,“ segir Ingibjörg brúnaþung á svip.

Með blóði, svita og tárum

Við tekur svo mikil óvissa hjá okkur og alls kyns upplýsingar úr mörgum áttum að vinna úr og svo kom það í okkar hlut að tæma húsnæðið og að reyna að vinna inn í slíku lofti og við slíkar aðstæður er vægast sagt hræðilegt. Við keyptum sérstakar grímur til að vera með en þær gerðu ekki mikið gagn. Eftir tvo mánuði var ljóst að við fengjum ekki rýmið aftur fyrr en eftir mjög langan tíma og ég hugsaði með mér að biðin yrði of dýrkeypt og ég gat ekki hugsað mér að segja öllum upp. Starfsfólkið er mér allt og þessum hóp af jafn duglegu og yndislegu fólki sem hefur starfað svo lengi mér við hlið var í forgang að halda saman. Mér bauðst að taka við rými í Bláu húsunum sem hafði verið veitingastaður áður, mun minna rými en við vorum í en ég sló til því mér fannst staðsetningin góð. Ég fékk góða tilfinningu fyrir þessu bili. Á einum og hálfum mánuði náðum við með blóði, svita og tárum að tæma allt úr Urðarhvarfi og taka allt í gegn í nýja rýminu og opna á ný snemma í nóvember síðastliðinn,“ segir Ingibjörg og bætir við að það hafi verið mjög mikil áskorun að koma sér fyrir í miklu minna eldhúsi og reyna að fóta sig. „Við vorum öll þreytt og búin á því andlega og líkamlega. Samt báru sig allir vel og ég er svo þakklát og stolt af fólkinu mínu sem hefur stutt mig vel og starfsfólkinu mínu sem lét hvergi bilbug á sér fá og héldu áfram sama hversu þungir dagarnir voru,“ segir Ingibjörg full þakklætis hve vel gekk að opna að staðinn að nýju.

Nýi Pure Deli staðurinn hennar Ingibjargar er stórglæsilegur og hönnunin …
Nýi Pure Deli staðurinn hennar Ingibjargar er stórglæsilegur og hönnunin hefur tekist afar vel til en Ingibjörg sá sjálf um hönnunina á staðnum. mbl.is/Árni Sæberg

Staðurinn vex og dafnar vel

Nýi staðurinn okkar vex og dafnar með hverjum deginum og ég og starfsfólkið að ná gleðinni á ný. Viðskiptavinir að átta sig á að við höfum opnað aftur og hvar við erum nú staðsett. Mörgum þykir æðislegt að við séum nú svona miðsvæðis og styttra að koma til okkar og eins eru mörg fyrirtæki sem kaupa mat í hádeginu nær og svo eru auðvitað hinir upp frá sem sakna mikið að hafa Pure deli þar. Við gerðum breytingar sem okkur þótti hæfa nýrri staðsetningu í Skeifunni og opnum nú klukkan 8 alla virka daga og svo klukkan 10 um helgar eins og áður. Við seljum svo mikið af söfum, þeytingum og avókadó „toast og er þetta okkar vinsælasti morgunmatur. Bröns plattinn okkar vinsæli er í boði um helgar og við ætlum á næstunni að gera enn meira fyrir helgarnar og verður sér seðill í boði þá með kósí helgar stemningu. Okkar vinsælu vefjur, salöt og ferskir safar eru ávallt í boði og síðan erum við með okkar góða kaffi frá Kaffitár, léttvín, freyðivín og bjór,“ segir Ingibjörg glöð á bragði.

Hollustan er í fyrirrúmi þegar kemur að gerð matseðilsins.
Hollustan er í fyrirrúmi þegar kemur að gerð matseðilsins. mbl.is/Árni Sæberg

Aðspurð segir Ingibjörg að sérstaðan þeirra  ferskur, hollur og bragðgóður matur, fallega framreiddur í notalegu umhverfi. Ég vil að viðskiptavinir okkar fái heildarupplifun og líði vel eftir á. Ég hef mjög gaman að hönnun og hef hannað staðina sjálf. Ég vil umfram allt þægilegt umhverfi, nota liti í stólum og þykkar eikarplötur í borðin því mér finnst koma svo góð orka með ekta eik. Græni Pure deli liturinn sem er svo ferskur og passar vel við allt og er okkar litur í aðalhlutverki og nóg af plöntum til að skapa réttu stemninguna.

Mikið er líka lagt upp úr veislu- og fyrirtækjaþjónustu. „Við leggjum einnig mikinn metnað í okkar veislu- og fyrirtækjaþjónustu og fer hún vaxandi, við erum að bæta við og sífellt að skoða sífellt hvernig við getum uppfyllt óskir viðskiptavina okkar betur. Einnig hefur 3ja daga safahreinsunin okkar verið vinsæl og ört vaxandi hluti síðan árið 2018 þegar við byrjuðu fyrst með hana. Þá fá viðskiptavinir kassa með nýpressuðum söfum fyrir 3ja daga sem eru að mestu leyti grænmetissafar og hafa reynst vel.“

Uppáhaldssalatið er Ingu-salatið

Ástríða Ingibjargar liggur í söfunum og salötum. „Ég geri mér salöt bæði í hádeginu og á kvöldin og drekk safa á morgnana. Ég algjörlega elska salötin okkar og eru þau fjölbreytt, falleg og matarmikil en uppáhaldssalatið er Ingu-salatið. Detox safinn er uppáhalds þessa dagana en hann inniheldur sellerí, mónu, sítrónu, spínat, engifer og grænt epli en mér þykir þeir allir góðir sem við gerum. Það eru ávallt 5 tegundir til ferskir í kælinum til að grípa með. Safahreinsunarsafana þarf að panta með fyrirvara og eru það ekki sömu safar og eru í kælinum á staðnum. 

Djúsí og ljúffengar skálar eru í boðið á Pure deli.
Djúsí og ljúffengar skálar eru í boðið á Pure deli. mbl.is/Árni Sæberg

Aðspurð segir Ingibjörg að þau stefni að því að opna fleiri staði en umfram allt vilji þau við passa upp á gæðin. „Við viljum skila þjónustu, mat og upplifun vel til okkar viðskiptavina, til þess að það gangi þarf starfsfólkinu að líða vel í vinnunni og legg ég ríka áherslu á það. Ég er afar þakklát og stolt af okkar teymi og okkar viðskiptavinum en það eru þeir sem láta hjólin snúast og gera Pure deli að því sem hann er,“ segir Ingibjörg sem horfir björtum augum fram á veginn.

Mikið úrval er af hollum og góðum söfum sem auka …
Mikið úrval er af hollum og góðum söfum sem auka vellíðan og gefa orku út í daginn mbl.is/Árni Sæberg
Réttirnir fanga bæði auga og munn.
Réttirnir fanga bæði auga og munn. mbl.is/Árni Sæberg
Hver einasti hlutur fær að njóta sín á staðnum og …
Hver einasti hlutur fær að njóta sín á staðnum og græni liturinn er í forgrunni. mbl.is/Árni Sæberg
Í eldhúsinu gerast töfrarnir.
Í eldhúsinu gerast töfrarnir. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert