Þegar Jómfrúarinnar nýtur ekki við í Köben

Vínúrvalið er úthugsað og gott. Þar ættu allir að finna …
Vínúrvalið er úthugsað og gott. Þar ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Ljósmynd/Stefán Einar

Jómfrúin er það danskasta sem við Íslendingar eigum. Hún tengir saman heima tvo. Maður stígur inn úr Lækjargötunni og er lentur í Köben. Í því felst hvíld og lengi hafa menn sem aldrei fá sér öl í hádeginu leyft sér einn Tuborg í hádeginu þar – bara vegna þess að þannig gerir maður í gömlu höfuðborginni sem þjónaði sem slík í nærri fimm hundruð ár, allt frá miðri 15. öld og fram til 1. desember 1918.

En maður er ekki alltaf í Reykjavík. Stundum bregður maður undir sig betri fætinum og skellir sér einmitt til Kaupmannahafnar. Það gerði ég í liðinni viku til þess að sjá stórgóða uppfærslu dönsku óperunnar á Töfraflautunni (sem Danir kalla Tryllefløjten!). Verkið er eitt af höfuðverkum tónbókmenntanna, var frumflutt réttum tveimur mánuðum áður en höfundur hennar, sjálfur Mozart, féll frá, langt fyrir aldur fram.

Gaf hús fyrir 62 milljarða

Og ég hafði hugsað mér að segja frá upplifuninni af veitingahúsinu Almanak, sem er staðsett á 5. hæð óperuhússins, sem skipakóngurinn Mærsk Mc-Kinney Møller gaf dönsku þjóðinni árið 2005 og kostaði litlar 440 milljónir dollara, jafnvirði 62 milljarða króna. En staðurinn olli vonbrigðum og ég nenni ekki að eyða verðmætu bleki Morgunblaðsins í að útskýra af hverju hann gerði lítið til að lyfta upplifuninni af óperunni – kannski flyt ég síðar fréttir af staðnum þegar ég hef prufukeyrt hann að nýju. Það má alltaf gefa mönnum annan séns.

En það er annar staður sem er skothelt að segja frá og mæla með. Það er Aamanns 1921, Það er smurbrauðsstaður, hánorrænn og stendur við Niels Hemmingsens Gade 19-21 í miðborginni.

Þar er á ferðinni staður sem er hugarfóstur matreiðslumeistarans Adams Aamann, sem árið 2006 opnaði heimsendingarstað sem lagði höfuðáherslu á að endurvekja hágæða smurbrauð sem hann taldi Kaupmannahafnarbúa hafa misst tenginguna við og þess í stað tekið upp ósiði með iðnaðarmajó, hafsjó af útvötnuðum agúrkum og niðursoðnu grænmeti af ýmsu tagi.

Á barnum má sjá tilraunastarfið í beinni útsendingu. Bragð verður …
Á barnum má sjá tilraunastarfið í beinni útsendingu. Bragð verður til. Ljósmynd/Stefán Einar

Á meðmælalistanum

Staðurinn sem hér ræðir um var hins vegar opnaður árið 2017 og hefur á fáum árum (covid þar á meðal) fest sig í sessi sem einn eftirtektarverðasti smurbrauðsstaður borgarinnar. Slík er vigt hans að hann er á meðmælalista Michelin og kæmi ekki á óvart ef stjarna færðist í kladdann einn daginn. Það verður þó að koma í ljós og gerir í sjálfu sér ekkert fyrir veitingarnar og viðurgjörninginn sem slíkan.

Þarna er gaman að koma í hádeginu, og raunar fram eftir degi ef kvöldið er ekki fært. Og sniðugt að grípa sér tvær til þrjár (alveg hámarkið!) snittur sem hver og ein vitnar í þjóðlegar hefðir með alþjóðlegu og nútímalegu ívafi.

Ánetjaðist hráu nautakjöti fyrir löngu – löngu á undan formanni …
Ánetjaðist hráu nautakjöti fyrir löngu – löngu á undan formanni Miðflokksins. Ljósmynd/Stefán Einar

Sá á kvölina sem á…

En svo tekur hugarangistin við. Hvaða rétti skyldi maður taka? Smjörsteikta rauðsprettu af pönnu, eða handpillaðar rækjur með rósakáli, dilli, púrrulauk á súrdeigsbrauði. Hvað með íslenskan kaldreyktan lax eða kjúklingasalat með selleríi og eplum?

Ég fór klassísku leiðina mína. Kjúklingasalat og nautatartar. Nettir, ljúffengir og léttbragða réttir sem léku við bragðlaukana og augun. Myndirnar tala sínu máli og natnin leynir sér ekki. Með þessu var óhætt að væta kverkarnar með lager úr smiðju Herslev-brugghússins og hefðin kallaði á að maður smakkaði einn af fjölmörgum heimagerðum snöpsum sem Adam og hans fólk skemmta sér við að skapa. Dill-snaps, léttkældur – og einn til – brennd sítróna við sama hitastig. Það var ekki laust við að febrúarhrollurinn sem sækir að manni á Strikinu hafi hopað eins og morgundögg fyrir sólargeislum morgunsins.

Vínseðillinn ágætur

Hjá Aamann er hægt að láta augun leika um ágætan vínlista, ekki langan en nokkuð vel úthugsaðan. Og staðurinn er ekki fastur í því að slá einvörðungu um sig með heimsþekktum framleiðendum. Fjöldaframleiðsla er sömuleiðis fjarri menningunni og rímar í öllu vel við það sem frá eldhúsinu sjálfu kemur.

Léttleikandi Riesling

Því miður hafði ég ekki tök á að rannsaka vínseðilinn nákvæmlega eða gera mikilvægar stikkprufur á því sem þar gat að líta. Leyfði mér þó að panta eitt glas af víni sem merkt var „Aamanns Selection“. Þar var á ferðinni hvítvín frá framleiðandanum St. Antony í Rheinhessen. Að sjálfsögðu Riesling og það þurr. Reyndist þar um að ræða afskaplega aðgengilegan og léttan Riesling sem þjónar vel til að hreinsa andrúmsloftið eða flýta fyrir því að lúin bein fái hvílst eftir borgarvolkið. Rúmar 2.000 krónur fyrir gæðaglas af þessu tagi verður að teljast mjög sanngjarnt.

Fólk verður ekki svikið af þessum notalega og stílhreina stað. Ég lofa því.

Kjúklingasalatiðbrást ekki, ekki frekar en Bombay á Jómfrú. Ólík eru …
Kjúklingasalatiðbrást ekki, ekki frekar en Bombay á Jómfrú. Ólík eru þau þó. Ljósmynd/Stefán Einar
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert