Gulli Arnar fagnar 4 ára afmæli með afmælisviku

Gunn­laug­ur Arn­ar Inga­son bak­ari og konditori fagnar 4 ára afmæli …
Gunn­laug­ur Arn­ar Inga­son bak­ari og konditori fagnar 4 ára afmæli bakarísins með afmælisviku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gunn­laug­ur Arn­ar Inga­son bak­ari og konditori, alla jafna kallaður Gulli Arn­ar, opnaði bakaríið sitt, Gulli Arn­ar, við Flata­hraun 31 í Hafnarfirði fyrir fjórum árum síðan og fagnar því 4 ára afmæli í dag 23. apríl. Í tilefni þess ætlar Gulli og teymið hans að vera með afmælisviku

„Við verðum með fullt af flottum eftirréttum ásamt því að vera með okkar margrómaða brauð og bakkelsi á sínum stað. Það er því tilvalið að kíkja til okkar og fagna með okkur.  Sumardagurinn fyrsti er einnig alltaf mjög vinsæll dagur hjá okkur þar sem margir gera vel við sig með kökum og kræsingum,“ segir Gulli.

Aðspurður segir Gulli að bakaríið hafi vaxið og dafnað vel frá fyrsta degi. „Þetta hefur verið ótrúlegt ferðalag frá fyrsta degi. Ég man vel eftir fyrsta deginum og hefur vöxturinn á bakaríinu verið æðislegur. Bakaríið byrjaði í 100 fermetrum sem varð fljótt allt of lítið fyrir okkur og höfum við nú stækkað í 400 fermetra, þetta hafa í raun verið 100 fermetra stækkun á hverju ári. Við höfum þó alltaf stækkað í sama húsnæði og leggjum við mikið upp úr því að vera alltaf á eina og sama staðnum. Okkur líður mjög vel á Flatahrauninu og ætlum við að halda okkur þar.“

Mesta hrósið viðskiptavinir sem koma aftur og aftur

Gulli segist hafa verið heppin með starfsfólk frá upphafi. „Ég er með frábært fólk með mér í bakaríinu sama hvort um sé að ræða bakara, nema eða afgreiðslustarfsmenn og erum við öll að vinna að sama markmiðinu, að framleiða gæða vöru og bjóða upp á góða þjónustu. Þau gildi breytast aldrei. Mesta hrósið sem við fáum er að sjá sömu viðskiptavini koma aftur og aftur til okkar og margir hverjir sem hafa fylgt okkur alveg frá upphafi. Ég hef búið til sterk vinasambönd með mörgum viðskiptavinum og mér þykir vænt um það.“

Fullur auðmýkt, þakklæti og stolti

Árin hafa liðið hratt en það sem hefur staðið upp úr á þessum fjórum árum hjá bakaranum knáa eru góðar stundir með samstarfsfólki og viðskiptavinum. „Ég horfi til baka á þessi fjögur ár fullur af auðmýkt, þakklæti og stolti en er einnig fullur eldmóðs að halda áfram að gera betur og halda áfram að gera það sem við gerum best,“ segir Gulli að lokum og horfir björtum augum til framtíðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka