Jákvæðar fréttir af leikmanninum sem hné niður

Leikmenn Arsenal huga að Fridu Maanum.
Leikmenn Arsenal huga að Fridu Maanum. AFP/Adrian Dennis

Norska landsliðskonan Frida Maanum, miðjukona Arsenal, hné niður undir lok venjulegs leiktíma og var borin af velli í óhugnarlegu atviki er Arsenal og Chelsea mættust í úrslitaleik enska deildabikarsins á Molineux-vellinum í Wolverhampton á sunnudaginn var.  

Var hún borin af velli með súrefnisgrímu en ástand hennar var stöðugt og var hún með meðvitund. 

Var leikurinn stöðvaður í sjö mínútur á meðan að Maanum fékk aðhlynningu. Arsenal vann bikarinn en hin sænska Stina Blackstenius skoraði sig­ur­mark Arsenal á 116. mín­útu leiks­ins, 1:0.

Ferðaðist með liðinu heim

Arsenal greindi frá því í dag að Maanum hafi það fínt. Þá þurfti hún ekki að fara á spítala og ferðaðist með liðinu heim eftir leikinn. 

Bætti félagið þó við að það fylgist náið með henni til að reyna að komast að orsökinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert