Fyrirliðinn sakaður um kynþáttaníð – Chelsea svarar fyrir sig

Conor Gallagher.
Conor Gallagher. AFP/Glyn Kirk

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Chelsea sendu frá sér yfirlýsingu í dag eftir að Conor Gallagher, fyrirliði liðsins, var sakaður um kynþáttaníð í garð ungs stuðningsmanns félagsins.

Atvikið átti sér stað fyrir leik Chelsea og Burnley á laugardaginn síðasta en leiknum lauk með jafntefli á Stamford Bridge í Lundúnum, 2:2.

Fyrir leik reyndi ungur stuðningsmaður, sem átti að leiða Gallagher inn á völlinn, að taka í höndina á Gallagher sem virtist ekki sjá hönd unga stuðningsmannsins.

Meðvituð um myndbandið

„Við erum meðvituð um myndband sem er í dreifingu á samfélagsmiðlum frá leiknum á laugardaginn og atvikið hefur verið tekið algjörlega úr samhengi,“ segir í yfirlýsingu Chelsea.

„Niðrandi ummælunum og svívirðingunum sem hefur verið beint að Conor Gallagher eru ólíðandi og fyrir neðan allar hellur.

Hjá Chelsea fögnum við fjölbreytileikanum og fólk frá ólíkum menningarheimum og með ólíkan uppruna er velkomið innan félagsins,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert