Tímabili framherjans væntanlega lokið

Christopher Nkunku hefur lítið spilað á tímabilinu.
Christopher Nkunku hefur lítið spilað á tímabilinu. AFP/Adrian Dennis

Franski knattspyrnumaðurinn Christopher Nkunku leikur líklegast ekkert meira með Chelsea á leiktíðinni vegna meiðsla.

Nkunku hefur verið mikið frá á tímabilinu, sem er hans fyrsta hjá Chelsea, vegna meiðsla, en enska félagið keypti hann á 52,7 milljónir punda frá Leipzig í Þýskalandi síðasta sumar. Hefur hann aðeins náð tíu leikjum í öllum keppnum.

Sóknarmaðurinn meiddist á hné á undirbúningstímabilinu og var ekkert með fyrir áramót. Hann meiddist síðan á mjöðm í janúar og svo aftur í febrúar. Var búist við að hann yrði frá í einn mánuð, en sá franski hefur hins vegar ekkert spilað síðan.

„Hann er ekki að æfa með okkur núna. Ég veit ekki hvað gerðist en þetta er að taka lengri tíma en við áttum von á. Við sjáum til hvor hann verði með okkur áður en tímabilinu lýkur,“ sagði Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Chelsea, á blaðamannafundi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert