Huckabee álasað fyrir að hafa náðað lögreglumorðingja

Fyrrverandi ríkisstjóri Arkansas Mike Huckabee.
Fyrrverandi ríkisstjóri Arkansas Mike Huckabee. CARLOS BARRIA

Mike Huckabee, fyrrum ríkisstjóri og einn þeirra sem barðist fyrir því að hljóta útnefningu Repúblíkana í síðustu forsetakosningum, sætir nú harðri gagnrýni. Ástæðan er sú að hann náðaði Maurice Clemmons þegar hann var ríkisstjóri Arkansas, en Clemmons er grunaður um að hana skotið fjóra lögreglumenn til bana á kaffihúsi suður af Seattle. Þetta kemur fram á vef danska dagblaðsins Berlingske Tidende.

Ekki er vitað hvað Clemmons gekk til. Hann gekk inn á kaffihúsið þar sem lögreglumennirnir sátu íklæddir lögreglubúningum sínum og skotheldum vestum og gæddu sér á kaffi áður en vakt þeirra átti að hefjast og skaut fjórmenningana til bana fyrirvaralaust án þess að skaða aðra viðskiptavini kaffihússins.

Vitað er að einum lögreglumannanna tókst að skjóta á Clemmons á móti og lögreglan telur að honum hafi tekist að særa árásarmann sinn. Síðan þá hefur Clemmons verið á flótta og telur lögreglan að hann sé í felum hjá vinum eða ættingjum.

En hvað hefur allt þetta með Huckabee að gera? Árið 1989 þegar Clemmons var 17 ára gamall var hann í Arkansas dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir rán, en árið 2000 ákvað Huckabee að náða hann. Sem ríkisstjóri Huckabee var þekktur fyrir að náða fjölda fanga ár hvert. Meðan hann var ríkisstjóri náðaði hann alls þúsund fanga, sem eru þrisvar sinnum fleiri fangar en þrír forverar hans í embætti höfðu samtals náðað.

Þeir sem harðast hafa gagnrýnt hinn hægrisinnaða og afar trúaða Huckabee tala um að hann þjáist af „Jesús-heilkenninu“ sem birtist í því að hann vilji miskunna sig yfir fólki og fyrirgefa því. Stuðningsmenn Huckabee segja á hinn bóginn að hann hafi aðeins gert það sama og fjölmargir aðrir ríkisstjórar. Linkind hans í garð glæpamanna hefur þó áður orðið honum til vandræða.

Þegar kosningabaráttan um útnefningu stóð sem hæst í fyrra var hann harðlega gagnrýndur fyrir að hafa náðað nauðgarann Wayne DuMond, sem eftir að honum var sleppt lausum nauðgaði enn á ný og framdi einnig morð.

Þess má geta að Mike Huckabee hafði í hyggju að keppa um útnefningu Repúblíkanaflokksins fyrir forsetakosningarnar árið 2012, en nú þykir óvíst hvort honum sé stætt á því eftir uppákomuna með Clemmons.

Huckabee var síðastur þeirra sem kepptu við John McCain, um útnefningu á síðast ári, til þess að draga sig í hlé. Hann starfar nú um stundir sem sjónvarpsmaður og álitsgjafi á bandarísku sjónvarpsstöðinni Fox News.


Maurice Clemmon
Maurice Clemmon HO
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert