Jarðskjálfti upp á 8,8 stig reið yfir Chile

mbl.is/Kristinn

Bandaríska jarðfræðistofnunin hefur hækkað skjálftann sem reið yfir Chile fyrir skömmu upp í 8,8 stig á Richter. Flóðaviðvörun hefur verið gefin út víða í Suður-Ameríku. Upptök skjálftans voru á Kyrrahafi í um 90 km fjarlægð frá borginni Concepcion og 317 km frá höfuðborg landsins, Santiago. Voru upptök skjálftans á 35 km dýpi. Mjög misvísandi er eftir fjölmiðlum heimsins hversu langt skjálftamiðjan var frá þéttbýlissvæðum í Chile en hér er byggt á frétt BBC um málið.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að byggingar í höfuðborginni hafi gengið til og frá í 10-30 sekúndur og allt rafmagn hafi farið af borginni.

Meðal annars hefur verið gefin út flóðaviðvörun í Chile, Perú, Kosta Ríka, Panama, Kólumbíu og Ekvador. Japönsk yfirvöld hafa einnig gefið út flóðaviðvörun víða í Kyrrahafinu.

Ef litið er til fyrri skjálfta þá létust um 230 þúsund í jarðskjálftanum sem reið yfir Haítí. Sá skjálfti var 7 stig á Richter. Jarðskjálftinn á Súmötru á annan dag jóla árið 2004 kostaði 250 þúsund manns lífið en gríðarleg flóðbylgja reið þá yfir. Sá skjálfti var 9,2 stig. Skjálfti sem mældist 9,5 stig reið yfir Chile árið 1960. Miklar skemmdir urðu í þeim skjálfta en 1.655 létust.

Á vef BBC kemur fram að símalínur og nettengingar við stærstan hluta landsins séu óvirkar. Mark Winstanley, sem hafði samband við BBC er staddur í Vina del Mar, 100 km norðvestur af Santiago, segir að byggingar hafi hrists og rafmagn farið af. Hann sjái hins vegar ekki að hús hafi hrunið.

Háskólaprófessor í Santiago, Cristian Bonacic, hafði samband við BBC og segir að skjálftinn hafi verið gríðarlegur en svo virðist sem borgin hafi sloppið furðu vel. Hann segir að netið virki en ekki farsímar.

Íslenska fyrirtækið Fram Foods er með starfsemi í Chile en það á 42% hlut í matvælafyrirtæki sem er með höfuðstöðvar í Valdivia sem er í suðurhluta Chile.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert