Grunur um gereyðingarvopn í Írak var ekki meginástæðan

Bill Frist, leiðtogi repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, segir grun um gereyðingarvopn ekki hafa verið helstu réttlætinguna fyrir innrás Bandaríkjahers í Írak. Bandaríska þjóðin hafi einfaldlega átt það skilið að Saddam Hussein yrði steypt af stóli.

„Okkur er kunnugt um að hann notaði gereyðingarvopn til að myrða mörg þúsund landa sína og eins fólk annars staðar,“ sagði Frist í viðtali við Today Show hjá sjónvarpsstöðinni NBC. „Þegar um er að ræða hryðjuverkamenn og aðila sem skjóta skjólshúsi yfir hryðjuverkamenn, fólk sem ræður yfir gereyðingarvopnum, myrðir landa sína og ræðst inn í önnur lönd [...] að losna við slíka aðila er vilji amerísku þjóðarinnar, þjóðin þarfnast þess og fólki finnst það öruggara fyrir vikið.“ sagði Frist og bætti því við að það kæmi sér ekki á óvart að gereyðingarvopn hefðu ekki fundist í Írak. „Gereyðingarvopn nútímans eru ný af nálinni. Þau eru litlar veirur, þau eru bakteríur og efnablöndur, hlutir sem ekki er hægt að sjá, snerta eða finna lykt af. Það er því ekki hlaupið að því að afla gagna um þetta. Stjórnin tók ákvörðun í samræmi við áreiðanlegustu gögn sem fyrir hendi voru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert