Kannanir benda til þess að ræða Kerrys hafi heillað kjósendur

Kerry og Bush takast í hendur áður en kappræður þeirra …
Kerry og Bush takast í hendur áður en kappræður þeirra hófust í Flórída í gær. AP

Þrjár skoðanakannanir sem gerðar voru eftir að fyrstu kappræðum George W. Bush og John Kerrys, forsetaframbjóðenda í Bandaríkjunum, lauk í nótt, benda til þess að þeir kjósendur sem fylgdust með kappræðunum, hafi hrifist af Kerry. Flestir þeirra sem þátt tóku í könnununum sögðust telja að Kerry hefði staðið sig betur en Bush.

Bush og Kerry héldu kosningabaráttu áfram í dag og reyndu báðir að sannfæra kjósendur um gott gengi sitt í kappræðunum.

John Edwards, varaforsetaefni Kerrys, sagði í dag að hann hefði mælt eftirfarandi orð við Kerry að kappræðunum loknum: „Ég held að fólkið hafi séð næsta leiðtoga landsins.“ Hann gagnrýndi Bush fyrir að viðurkenna ekki að staðan í Írak sé nú afar erfið. „Það er ekki hægt að laga vandamál ef þú vilt hvorki viðurkenna að mistök hafi verið gerð né að um vandamál sé að ræða,“ sagði Edwards.

Bush taldi hins vegar að hann hefði útskýrt stefnu sína með árangursríkum hætti og tekist að sýna fram á staðfestu sína í baráttunni við hryðjuverk. „Ég tel að hann hafi talað frá hjartanu, talað með sannfærandi hætti um nauðsyn þess að land okkar berjist við hryðjuverkamenn sem eru víðs fjarri, svo við þurfum ekki að horfast í augu við þá hér heima,“ sagði Dan Bartlett, yfirmaður samskiptamála í Hvíta húsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert