Hertar aðgerðir Ísraela á Gasa

Palestínsk börn virða fyrir sér rústir við skóla Sameinuðu þjóðanna …
Palestínsk börn virða fyrir sér rústir við skóla Sameinuðu þjóðanna í Jebaliyah. Skólinn skemmdist í árás Ísraela í gær. AP

Ísraelsher herti í dag á miklum hernaðaraðgerðum gegn Palestínumönnum á Gasa, en 114 Palestínumenn, þar á meðal mörg börn, hafa látist í árásum Ísraela þar undanfarnar tvær vikur. Í dag hófu Ísraelar aðgerðir í bænum Beit Lahiya, en tugir skriðdreka og jarðýtna á vegum hersins fóru inn í bæinn.

Allnokkrar götur og engi í nágrenninu höfðu einnig verið tætt í sundur af hernaðartækjum Ísraela.

Eyal Eizenberg, hershöfðingi í Ísraelsher, sagði í útvarpi hersins að hermenn hans hefðu mætt allnokkurri andspyrnu þegar þeir fóru inn í Beit Lahiya, sem er norður af Jabaliya flóttamannabúðunum, sem Ísraelar hafa haldið uppi árásum á undanfarnar vikur.

„Sprengjum var varpað á okkur og einnig eldflaugum sem beitt er gegn skriðdrekum,“ sagði hershöfðinginn. Hann sagði að einnig hefði verið skotið að hermönnunum.

Í herútvarpinu kom fram að herþyrlur hefðu sveimað yfir bænum til stuðnings skriðdrekunum.

Palestínsk öryggisyfirvöld sögðu að félagi í hernaðarvæng Hamas samtakanna hefði verið drepinn og að minnsta kosti tveir hefðu særst þegar þyrla skaut flugskeyti að Beit Lahiya. Sögðu þau að hinir særðu væru þungt haldnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert