Segist hafa orðið manni að bana

Norski rithöfundurinn Margit Sandemo upplýsti í viðtali við sænska sjónvarpið fyrir helgi, að hún hefði orðið manni að bana þegar hún var 11 ára gömul. Hefði hann nauðgað henni og hún þá barið hann í höfuðið með steini.

Sandemo, sem stendur á áttræðu, sagði í viðtalinu, að sér hefði verið nauðgað þrisvar sinnum er hún var á aldrinum sjö til 11 ára. Bjó hún þá í Svíþjóð og í þriðja og síðasta sinnið hefði hún hefnt sín á ofbeldismanninum með því að berja hann í höfuðið með steini. Varð það honum að bana. Segir hún, að um hafi verið að ræða farandsala og hefði hún dregið líkið ofan í díki í skóginum.

Þrisvar sinnum á geðsjúkrahús

Sandemo segist ekki vita hvort líkið hafi nokkru sinni fundist en telur, að nauðganirnar og þessi atburður hafi átt mestan þátt í, að hún var þrisvar sinnum lögð inn á geðsjúkrahús á unglingsárunum.

Sandemo, sem er kannski kunnust fyrir sögur sínar um Ísfólkið, segist hafa sagt frá þessu öllu fyrir 20 árum, þegar hún sextug, en þá bara í einni bóka sinna. Vakti það enga athygli enda var atburðurinn búinn sem reynsla einnar sögupersónunnar.

Sandemo er fædd í Noregi en ólst upp í Svíþjóð frá sex ára aldri með sænskri móður sinni, Elsu Reuterskiöld, en hún var af aðalsættum. Voru þau fimm systkinin en Margit fór mikið einförum og var oft úti í skógi. Var hún þar á ferð í öll skiptin er henni var nauðgað að því er hún segir.

Meira en 150 bækur í næstum 40 milljónum eintaka

Sandemo settist síðar aftur að í Noregi og lengst af ævinnar hefur hún búið í Valdres. Fyrir tveimur árum fluttist hún síðan til Svíþjóðar og býr nú á Skáni. Í Noregi hafa komið út meira en 150 bækur eftir Margit Sandemo og bækur hennar hafa selst í næstum því 40 millj. eintaka. Er hún meðal þeirra norrænu rithöfunda, sem mest hafa selst.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert